svane.jpg - 2932 Bytes Medier i Norden

Önnur ársfjórðungsútgáfa 1999
  
    Aðalsíða - á íslensku | Safn: Ársfjórðungsleg útgáfa | Yfirlit   
  Efnisyfirlit

Danmörk   |  Finnland   |  Ísland   |   Noregur   |   Svíþjóð   |   Norðurlönd

  Ársfjórðungsútgáfur á Medier i Norden
á íslensku eru til á netinu frá og með árinu 1998. Í þeim er að finna útdrátt á íslensku úr greinunum í Medier i Norden á skandinavísku: Resymé.

Öllum er frjálst að vitna í Medier i Norden ef heimildar er greinilega getið.

  Ritstjóri                                                  Ábyrgðarmaður
Terje Flisen (TF)                                      Søren Christensen, framkvæmdastjóri
Postboks 1726 Vika                                 Nordisk Ministerråd,
0121 Oslo, Norge                                     Store Strandstræde 18
Tlf. + 47 22 20 80 61                                DK-1255 København K., Danmark

Medier i Norden (áður Nordisk Medie Nyt) ISSN 1396-9331 rafræn útgáfa.

 

Danmörk

01.06.99: Ársskýrsla Nefndar um byggðarhljóðvarp og -sjónvarp

Nefndin um byggðarhljóðvarp og -sjónvarp hefur skilað ársskýrslu sinni vegna ársins 1998. Nefndin er skipuð af menningarmálaráðherranum til fjögurra ára samkvæmt lögum um útvarpsstarfsemi. Nýir fulltrúar voru síðast skipaðir í nefndina 1. apríl 1998.

"Liður í nýskipan mála á sviði byggðarútvarps var að á árinu 1997 var stofnaður sjóður í þágu byggðarhljóðvarps- og -sjónvarpsstöðva, sem eru ekki reknar í atvinnuskyni, og lýtur sjóðurinn stjórn nefndarinnar", segir í ársskýrslunni.

"Sjóðurinn er stofnaður samkvæmt samningnum um fjölmiðlamál sem samþykktur var 10. maí 1996. Sjóðurinn hefur úr að spila um 50 millj. d. kr. árlega og kemur í stað fjármuna úr getraununum sem varið var til byggðarútvarpsmála, á árinu 1996 7,5 millj. d.kr. Veigamikill munur milli sjóðanna tveggja er auk stærðarmunarins að nú eru einnig veitt framlög til byggðarsjónvarpsstöðva þótt þær séu ekki reknar í atvinnuskyni.

Á grundvelli reynslu nefndarinnar af styrkjafyrirkomulaginu á fyrstu ársfjórðungunum í 1997 samdi menningarmálaráðuneytið nýja reglugerð um starfsemi byggðarútvarpsstöðva og fól hún í sér nákvæmari skilgreiningu og herðingu reglnanna um framlög. Veigamestu breytingarnar voru að einungis þættir sem stöðvarnar höfðu sjálfar framleitt voru teknir með í útreikninginn á rekstrarstyrknum og ekki endurteknir þættir. Nýja reglugerðin öðlaðist gildi 1. janúar 1998.

Nefndin hefur einnig á árinu 1998 varið talsverðum fjármunum í að forðast að 'styrkjahugarfar ' væri við lýði, og á árinu 1998 hefur aftur verið aflað umsagnar nefnda á hverjum stað og samtaka um byggðarútvarp um styrkjafyrirkomulagið.

Þann 15. desember 1998 var samþykktur viðbótarsamningur við samninginn um fjölmiðlamál frá 10. maí 1996, sem m.a. þýðir að breyting verður á styrkjafyrirkomulaginu gagnvart byggðarútvarpsstöðvum sem eru ekki reknar í atvinnuskyni og miðast hún við 1. júlí 1999. Ætlunin er að úthluta meirihluta sjóðsfjárins í formi þáttastyrkja að loknu raunverulegu mati á umsóknum. Nefndin kemst þannig að þeirri niðurstöðu að enn á árinu 1999 verða teknar upp nýjar reglur um úthlutun nefndarinnar úr sjóðnum til byggðarstöðvanna", segir m.a. í ársskýrslunni.

Einnig segir: "Árið 1998 voru það eins og undanfarin ár byggðarhljóðvarpsstöðvar sem urðu tilefni flestra mála. Nefndin hefur orðið vör við tilhneigingu á þá átt að málin verði æ flóknari. Fleiri kvartanir snúast ekki aðeins um ákvörðun nefndar um að synja umsókn um útvarpsleyfi eða um niðurfellingu leyfis heldur einnig um meint vanhæfi nefndarmanna, starfsaðferðir nefndarinnar í umfjöllun um mál o.fl.", segir m.a. í ársskýrslu nefndar um byggðarútvarp og -sjónvarp.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

04.05.99: Bæði DR og TV 2 óska eftir hækkun á afnotagjöldum

"Bæði DR og TV 2 óska eftir hækkun á afnotagjöldum í fyrirhuguðu fjölmiðlasamkomulagi sem gilda á 2001-2004, og rök stöðvanna fyrir að taka til sín fleiri peninga frá notendum eru þau að nauðsynlegt sé að fjárfesta hér og nú ef almenningsþjónustustöðvarnar eigi að geta búið sig undir stafræna framtíð bæði hvað varðar tækni og inntak", skrifar Aktuelt Online.

"TV 2 álítur að þörf verði fyrir alls 300 millj. d. kr. til þess að hefja notkun stafrænnar tækni og leggur til að fjárins verði aflað með því að gefa eingreiðslu til þess að taka upp stafræna tækni og auka hlutdeild þeirra í afnotagjaldinu úr 15 í 24 prósent.

Reikningsdæmi DR hljóðar upp á 1,826 milljarða d.kr. á næstu fjórum árum til viðbótar þeim þrem milljörðum sem DR fær í sinn hlut af afnotagjaldinu.

Viðbótarfjármagninu á m.a. að verja í að efla ímynd almenningsþjónustustöðvarinnar út á við svo hún standi styrkari fótum í samkeppninni við erlendar sjónvarpsstöðvar og stöðvar sem reknar eru í atvinnuskyni", skrifar Aktuelt Online.

Meðal óska DR eru 400 sjónvarpsstundir í viðbót á ári, fleiri þættir um náttúru og vísindi, betri fréttaþættir, fleiri barnaþættir, dönsk sjónvarpsleikrit og skemmtiþættir. Kaup á réttindum að kostnaðarsömum íþróttaviðburðum, betri kynning á DR sem menningarrás, stafræn tæknivæðing sjónvarps- og hljóðvarpssafns DR og framleiðslutækja með kaupum á stafrænum búnaði eru einnig meðal liða á óskalistanum, að því er segir í Aktuelt Online.

Blaðið bendir á að pólitískur meirihluti geti verið fyrir því að aðstoða hinar tvær dönsku almenningsþjónusturásir fyrstu skrefin inn í stafræna tækni þegar umræðurnar um fjölmiðlamál hefjast að loknu sumarleyfi þingsins. "Bæði jafnaðarmannaflokkurinn, íhaldsflokkurinn og Venstre eru opnir fyrir þeim möguleika að veita stöðvunum eingreiðslu vegna stafrænnar tæknivæðingar", segir í Aktuelt Online.

Heimild: Aktuelt Online

Fara efst á síðuna
 

Finnland

09.06.99: Skýrsla mælir með endurmati á blaðastyrknum

"Dagblöðin sem njóta blaðastyrks eru orðin æ háðari styrknum", segir í skýrslu sem samgönguráðuneytið hefur farið fram á. "Dagblöðin skila ekki hagnaði vegna þess að bæði upplagstölur og auglýsingartekjur lækka", segir í fréttatilkynningu. "Skýrsla sem samgönguráðuneytið pantaði sýnir að einnig grundvöllur úthlutunar á blaðastyrkjum er óskýr og hann lýtur ekki grundvallarreglum opinberrar starfsemi.

Úthlutunargrunnur blaðastyrksins, áhrif hans og framtíðarþörfin var til umfjöllunar í fjölmiðlahópnum á miðstöð um rannsóknir í rekstrarfræði fyrirtækja og menntun í Turun Kauppakorkeakoulu.

Samkvæmt skýrslunni getur þingið valið milli fjögurra lausna varðandi blaðastyrkinn. Núverandi kerfi sem skiptist í svonefndan valbundinn blaðastyrk og þingbundinn blaðastyrk getur haldið áfram, hætta má við valbundna styrkinn, skilgreina má nýjar forsendur fyrir styrkveitingu eða breyta má blaðastyrknum í styrk til upplýsinga- eða fjölmiðlamála. Ekki er unnt að ráða af skýrslunni með hvaða lausn vísindamennirnir mæla.

Samgönguráðuneytið pantaði þessa könnun sem hluta af því könnunarverkefni sem þingið fól ríkisstjórninni árið 1998 við umfjöllun um fjárlögin vegna ársins í ár. Þingið setti sem skilyrði að í könnuninni væri tekið tillit til nýrra samskiptaleiða og að ljóst verði af skýrslunni hver sé framtíðarþörfin fyrir blaðastyrk og hvaða viðmiðanir eigi að gilda um úthlutun.

Í Finnlandi hefur blaðastyrk verið úthlutað í áratugi í því skyni að styðja tjáningarfrelsið og alhliða framboð á upplýsingum", segir í fréttatilkynningunni.

Skýrslan "Lehdistötuki 2000 Lehdistötuen jakoperusteet, vaikutukset ja tulevaisuuden tarpeet. Rit samgönguráðuneytisins 23/99", fæst hjá upplýsingadeild samgönguráðuneytisins, sími +358 (09) 169 23 33. (Sala: Edita Oy, sími +358 (09) 566 02 66.)

Heimild: Samgönguráðuneytið

14.05.99: Valbundinn styrkur til 35 blaða

"Ráðherra hefur tekið ákvörðun um úthlutun styrkja til lækkunar á flutnings- og dreifingarkostnaði, svo og öðrum kostnaðarliðum hjá dagblöðunum", segir í fréttatilkynninu samgönguráðuneytisins. "Samtals voru veittar 30 milljónir marka til styrksins á fjárlögunum fyrir árið 1999. Ráðherrann veitti styrkinn 12. maí.

Ákvörðunin var tekin í samræmi við tillögu fjölmiðlanefndarinnar sem hefur tekið tillit til þeirrar styrkfjárhæðar sem veitt var til umsækjenda í fyrra og til breytinga á fjárhagsaðstæðum umsækjenda á liðnu ári. Í fyrra var veittur styrkur að fjárhæð alls 40 milljóna marka", segir m.a. í fréttatilkynningunni.

Heimild: Samgönguráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Ísland

21.05.99: Netnotkun vex

Ný markaðsrannsókn, sem Gallup á Íslandi gerði í mars og apríl fyrir verkefnisstjórn þróunarverkefnis um íslenska upplýsingasamfélagið, sýnir að nú hafa ríflega 82% landsmanna á aldrinum 16-75 ára, aðgang að netinu, á heimili, í vinnu eða í skóla.

Könnunin er sú þriðja sem verkefnisstjórnin lætur gera en hinar tvær fóru fram í febrúar og september 1998. Samanburður á niðurstöðum sýnir mikla aukningu á netnotkun á þessu tímabili. Sem dæmi má nefna að í könnuninni í febrúar 1998 kváðust 27,2% aðspurðra ekki hafa aðgang að netinu en í nýju könnuninni eru aðeins 17,7% í sömu sporum.

Fjölmargt eftirtektarvert kemur fram í könnuninni, svo sem að konur hafa aðgang að internetinu á heimili, næstum því til jafns á við karla en nota það hins vegar mun minna eða að meðaltali 2,5 klukkustund á viku á móti 4,7 klukkustundum á viku hjá körlum. Á hinn bóginn hafa konur sjaldnar aðgang að netinu á vinnustað en karlar, 34% kvenna á móti 49% karla.

Í könnuninni kemur jafnframt fram munur á netnotkun eftir búsetu. Á höfuðborgarsvæðinu sögðust 15% ekki hafa aðgang að netinu en 23% aðspurðra á landsbyggðinni. Þá munu tölvur nú vera á tveimur af hverjum þremur heimilum á landinu.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

28.04.99: Aðgangur Íslendinga að alfræðiorðabókinni Encyclopædia Britannica

Ríkisstjórn Íslands samþykkti nýlega tillögu menntamálaráðherra um undirritun samnings um aðgang íslensku þjóðarinnar að gagnasafni Encyclopædia Britannica á netinu. Felur samningurinn í sér að opnaður verður aðgangur fyrir alla notendur netsins hérlendis. Jafnframt hefur Britannica óskað eftir samvinnu við Íslendinga um söfnun efnis um Ísland inn í alfræðiorðabókina. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem útgáfufyrirtæki bókarinnar gerir samning um aðgang heillar þjóðar að gagnasafninu.

Meginmarkmið menntamálaráðuneytisins með samningnum er að tryggja kennurum, nemendum og fræðimönnum aðgang að Britannicu. Í viðræðunum féllust útgefendur bókarinnar hins vegar á að opna öllum Íslendingum aðgang að gagnasafni Britannicu, sem hefur að geyma milljónir heimilda auk mynda og margmiðlunarefnis.

Heimild: Menntamálaráðuneyti

28.04.99: Skýrsla starfshóps um tungutækni

Menntamálaráðherra kynnti nýlega niðurstöður starfshóps um tungutækni en það er tæknin við meðferð tungumálsins í tölvum og hugbúnaði. Starfshópurinn lauk störfum fyrir skemmstu og mun menntamálaráðuneytið beita sér fyrir umræðum um skýrsluna á almennum vettvangi og meðal sérfræðinga.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru að nauðsynlegt sé að tryggja að íslenska verði að fullu gjaldgeng í upplýsingasamfélaginu. Notkun tölva og upplýsingatækni sé orðinn svo veigamikill þáttur í atvinnulífi landsmanna, að verði ekki hægt að nota íslensku í öllum algengum hugbúnaði og tölvum, veikir það mjög stöðu íslensku almennt og skaðar samkeppnisstöðu Íslands gagnvart öðrum ríkjum.

Það kemur fram í niðurstöðum starfshópsins að lítið er til af þeim hugbúnaðarverkfærum sem eru forsendur þess að nota íslensku í tölvum. Þar er átt við forrit sem leiðrétta stafsetningar- og málfræðivillur, orðabækur í tölvutæku formi og annað slíkt sem flestar þjóðir hafa þegar komið sér upp og eru hluti af ritvinnslukerfum þeirra. Einnig telur starfshópurinn nauðsynlegt að nýjasta tækni á þessu sviði, talgervlar og talgreining, sem stundum hafa verið nefnd tölvutal og tölvuheyrn, verði til fyrir íslensku en sú tækni er flókin og dýr og þarf því að þróa hana í alþjóðlegu samstarfi.

Starfshópurinn telur stöðu tungutækni slæma hér á landi og leggur til að átak til úrbóta verði gert hið fyrsta. Í fyrsta lagi þurfi að byggja upp sameiginleg gagnasöfn, málsöfn, sem geti nýst fyrirtækjum sem grunnur í leiðréttingarforrit, orðabækur og önnur verkefni. Í annan stað verði að leggja fé í rannsóknar- og þróunarsjóð sem styrki hagnýtar rannsóknir á sviði tungutækni. Í þriðja lagi þurfi að styrkja fyrirtæki til þess að þróa afurðir tungutækni og að lokum að koma á stuttu hagnýtu námi í máltækni og meistaranámi í máltölvun.

Að mati starfshópsins þarf að verja verulegum fjármunum, allt að 250 milljónum króna á ári, til þessa verkefnis, í að minnsta kosti fjögur ár svo að verulegur árangur náist. Hitt verði aldrei metið til fjár, að staða íslenskrar tungu í hugbúnaði og tölvum sé styrkt, fyrir utan hið almenna hagræði sem af því er fyrir alla íslenska notendur upplýsingatækninnar.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

09.04.99: Samið um gerð tveggja erlendra kvikmynda á Íslandi

Tvö erlend kvikmyndafyrirtæki, annað bandarískt en hitt franskt, hafa samið við Íslensku kvikmyndasamsteypuna um tökur á sitt hvorri kvikmyndinni á Íslandi á þessu ári. Þessir samningar eru til komnir í beinu framhaldi af nýjum lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem samþykkt voru á dögunum.

Finnur Ingólfsson, iðnaðarráðherra segist sannfærður um að í alþjóðlegum skemmtiiðnaði, tónlist eða kvikmyndum, séu sóknarmöguleikar Íslendinga stöðugt að aukast. Nú þegar búið væri að skapa samkeppnishæft rekstrarumhverfi á alþjóðlega vísu, eigi Íslendingar möguleika á að laða til landsins fleiri framleiðendur á þessu sviði. Myndirnar tvær sem samkomulag hefur náðst um, væri staðfesting á því.

Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður hjá Íslensku kvikmyndasamsteypunni segir skattalagabreytinguna tvímælalaust nauðsynlega til að fá erlenda kvikmyndagerðarmenn til landsins og að hún væri að sama skapi gríðarleg lyftistöng fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn. Samtals væru myndirnar tvær, verkefni upp á um 350 milljónir króna. Friðrik segir kvikmyndagerðarmenn ennfremur almennt ánægða með nýju lögin fyrir utan það að þau næðu ekki til þeirra mynda sem styrktar eru af Kvikmyndasjóði Íslands en sagðist vænta þess að sá ágalli yrði lagfærður síðar.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

07.04.99: Bíógestum í Reykjavík fjölgar hægar en bíósætum

Þrátt fyrir fjölgun íbúa Reykjavíkur sem og fjölgun bíósala og sæta hefur fjöldi gesta kvikmyndahúsanna í Reykjavík nánast staðið í stað þennan áratuginn eftir mikla fækkun á þeim síðasta. Færri miðar seljast því nú að jafnaði í hvert sæti.

Um 6.450 bíósæti standa gestum til boða í 26 bíósölum í Reykjavík, að jafnaði um 250 í sal. Árið 1997 voru sýningar 685 í viku eða hátt í 36 þúsund yfir árið. Gestafjöldinn var rúmlega 1,3 milljónir eða kringum 37 manns að meðaltali á hverri sýningu. Þetta samsvarar því aðeins um 15% sætanýtingu eða að allir íbúar höfuðborgarsvæðisins fari í bíó um 8 sinnum á ári. Sama hlutfall var um 9 sinnum fyrir fimm árum, 11 sinnum um miðjan síðasta áratug og 15 sinnum á árinu 1980, þegar bíógestir í Reykjavík voru nær 1,8 milljónir.

Einar S. Valdimarsson, forstjóri Háskólabíós, vill ekki samþykkja að nánast óbreyttur gestafjöldi í meira en áratug og aðeins 15% sætanýting síðustu árin bendi til offjárfestingar í kvikmyndahúsum en segir að sætanýting mætti þó óneitanlega vera betri. Hann bendir á að sambærilegar tölur yfir gestafjölda í Danmörku og víðar samsvari aðeins um tvöföldum íbúafjölda og minnir einnig á þá sérstöðu Háskólabíós að húsið sé yfirleitt í notkun frá klukkan 8 á morgnana sem kennslustofur fyrir Háskóla Íslands og fram yfir miðnætti. Einar S. Valdimarsson segir jafnframt að videomarkaðurinn á Íslandi sé mjög sterkur og það ýti undir aðsókn í kvikmyndahúsin. Sterkur leigumarkaður samfara margfaldri bíóaðsókn virðist því benda til þess að miðað við nágrannalöndin séu Íslendingar óvenju áhugasamir um kvikmyndir þrátt fyrir að hlutfallslega hafi dregið úr bíóaðsókn.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Noregur

08.06.99: Nefnd á að kanna stefnuna í málefnum kvikmyndahúsa

"Anne Enger Lahnstein, menningarmálaráðherra, hefur tekið frumkvæði til þess að í júnímánuði verði skipuð opinber nefnd til að kanna stefnuna í málefnum kvikmyndahúsa", segir í fréttatilkynningu menningarmálaráðuneytisins. "Nefndin skal á grundvelli markmiðs um gott framboð á kvikmyndahúsum handa öllum íbúum framkvæma heildarmat á opinberri stefnu sem skiptir kvikmyndahúsarekstur máli, m.a. athuga skipulagið á einkaleyfisveitingu sveitarfélaga og framtak sem Kvikmyndahúsa- og kvikmyndasjóður Noregs fjármagnar.

Hin opinbera kvikmyndahúsastefna hefur haft hagstæð menningar- og byggðarpólitísk áhrif. Grunnurinn að skipun nefndarinnar eru skipulagsbreytingar í kvikmyndahúsageiranum og óöryggið sem þær hafa skapað um framboð kvikmyndahúsa í Noregi í framtíðinni. Nefndin á að gera úttekt á hlutverki hins opinbera í stefnumótun í málefnum kvikmyndahúsa og styðja við tillögur sem geta tryggt áfram landfræðilega dreifingu kvikmyndahúsa. Forsendan er að núverandi ábyrgðarskípting milli ríkis og sveitarfélaga verði áfram við lýði.

Nefndin verður skipuð fimm fulltrúum og verða tveir þeirra skipaðir að tillögu Film & Kino sem er sameiginlegt heiti Landssamtaka kvikmyndahúsa á vegum sveitarfélaga, Kvikmyndahúsa- og kvikmyndasjóðs Noregs og Byggðarkvikmyndahúss og Félags norskra kvikmyndastofa. Skýrslu nefndarinnar skal vera lokið 1. júlí 2000" segir í fréttatilkynningunni.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

02.06.99: Meirihluti í Stórþinginu styður pólitískar auglýsingar í hljóðvarpi

"Auglýsingar um stjórnmál og lífsviðhorf verða leyfðar á hljóðvarpsrásum sem reknar eru í atvinnuskyni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í haust. Meirihluti í Stórþinginu styður þær en setur mörkin við sjónvarpsauglýsingar og auglýsingar í textavarpi segir NTB sem vekur athygli á því að stjórnarflokkarnir hafa gjörbreytt afstöðu sinni til spurningarinnar um slíkar auglýsingar og mynda meirihluta með Hægriflokknum og Framfaraflokknum.

NTB vísar í álit menningarmálanefndar og getur þess að Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn vilja einnig leyfa að sjónvarp sé fjármagnað með auglýsingum en að þeir styðji til vara miðjuflokkana.

Í fréttatilkynningu menningarmálaráðuneytisins dags. 30. apríl 1999 segir að ríkisstjórnin leggi til bann við auglýsingum um lífsviðhorf og pólitískan boskap í sjónvarpi en styðji að þær verði leyfðar í hljóðvarpi. Frumvarp þessa efnis var undirbúið í ráðuneytinu sama dag

"Verkamannaflokkurinn er á móti auglýsingum um flokkspólitík og lífsviðhorf bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi en viðurkennir að baráttan er að hálfu töpuð", skrifar NTB. Sp og KrF hafa allan tíma verið á móti þessu en hafa nú algjörlega breytt um skoðun. Þetta kemur mjög á óvart og vitnar um skort á grundvallarviðhorfum" segir Aps Grethe Fossum við NTB.

Heimild: NTB

31.05.99: Fjölmiðlapólitísk greinargerð frá menningarmálaráðherranum

" Meginmarkmiðin í fjölmiðlastefnunni eru ákveðin þótt tæknin breytist. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að viðhalda tjáningarfrelsinu og alhlíða fjölmiðlaframboði í háum gæðaflokki á norsku með mikilli landfræðilegri dreifingu" sagði Anne Enger Lahnstein, menningarmálaráðherra í fjölmiðlapólitískri greinargerð í Stórþinginu þann 28. maí.

" Fram að þessu hefur okkur tekist vel að ná fjölmiðlapólitískum markmiðum okkar. Almenningsútvarp á sér sterka hefð í Noregi og við höfum úrval héraðsfréttablaða sem hvergi á sinn líka í öðrum löndum. Tölur norsku hagstofunnar vegna ársins 1998 sýna stöðuga samstöðu um bæði dagblöð og almenningsútvarpsstöðvarnar" segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

" Tæknilegu framfarirnar hafa sérstaklega áhrif á útvarpsstarfsemina. Við stöndum andspænis umbreytingu úr analógri (flaumrænni) í stafræna tækni á hljóðvarpi og sjónvarpi. Þetta leiðir til að fjarskipta-, upplýsingatækni- og útvarpsgeirarnir eignist sameiginlegan tæknilegan grunn, sem einnig nefnist samleitni. Útvarpsframboðið margfaldast þegar fjárhagsleg rammaskilyrði breytast og samkeppnin eykst. Samleitninefndin sem skipuð er af ríkisstjórninni hefur metið þörfina fyrir breytingar á fjárskipta- og útvarpslöggjöfinni og hún skilar áliti í júní á þessu ári" sagði menningarmálaráðherrann meðal annars.

Hún benti á að viðskiptavæðingin skapar ný samkeppnisskilyrði. "Okkur er nauðugur sá kostur að taka afleiðingum þess, m.a. með því að bjóða NRK ný og samkeppnishæf skilyrði. Við verðum að bregðast við neikvæðum áhrifum, m.a. með virkri fjölmiðlapólitík. Veita verður aðgang að hinu gífurlega efnis í menningarstofnunum okkar hvort sem um er að ræða efni í safni NRK eða í söfnum og galleríum. Við megum ekki lúta fyrir viðskiptavæðingunni. Til dæmis er ekki á döfinni hjá ríkisstjórninni að veita möguleika á frjálslegri auglýsingareglum í útvarpi. Í frumvarpinu um kostun höfum við lagt til að kostunarreglur NRK verði hertar. Við leggjum mikla áherslu á að NRK verði í raun útvarpsstöð án auglýsinga", sagði Lahnstein.

Lahnstein upplýsti að hún hyggðist hefja viðræður við TV2 sem óskar eftir að fá endurnýjað einkaleyfið sitt áður en það rennur út um áramótin 2002/2003. " Ég ætla í viðræðunum að leggja mikla áherslu á skyldur þær sem á félaginu hvíla sem almenningsútvarpsstöð", sagði hún.

Átjánda júní sl. lagði ríkisstjórnin fram greinargerð til stórþingisins um uppbyggingu stafræns sjónvarpsnets á jörðu niðri. Það veitir möguleika á nýrri gagnvirkri þjónustu, hagkvæmari dreifingu og breiðara framboði á þáttum. Hugsanleg lagning stafræns sjónvarpsnets á jörðu niðri hefur um tíma í för með sér aukinn kostnað fyrir útvarpsstöðvarnar vegna þess að flaumrænar og stafrænar sendingar verða í nokkur ár samhliða.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

19.04.99: Fjölmiðlanefnd skipuð

Menninarmálaráðuneytið hefur skipað nefnd sem ætlað er að "... framkvæma heildarmat á opinberum áhrifaþáttum sem skipta máli varðandi rammaskilyrði fjölmiðlanna, m.a. lýtur matið að dagblaðastyrknum, auglýsingastefnu ríkisins og virðisaukaskattskerfinu", segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

Nefndin er undir stjórn Hallvard Bakke, hagfræðings frá Ósló og skal matinu vera lokið fyrir 15. apríl 2000.

"Auk Hallvard Bakke sitja í nefndinni Tone Grøver, sérráðgjafi, Ósló, Rune Hetland, framkvæmdastjóri, Ølen í Hordaland, sem skipaður að tillögu Landssambands héraðsfréttablaða, Sigurd Hille, deildarstjóri, Björgvin, skipaður að tillögu Landssambands norskra dagblaða, Einar Hope, prófessor, Björgvin, Rakel Surlien, forsesti Hæstaréttar, Ósló, og Britt-Eva Elvejord Jacobsen, sérkennari, Lenvik í Troms.

Nefndinni er ætlað að meta fjölmiðlapólitísk markmið miðað við fjölmiðlaþróunina á undanförnum árum og líta á mikilvægi fjölmiðla varðandi samfélagsfræðslu almennings og þátttöku í lýðræðinu. Nefndin á ennfremur að gera úttekt á efnahagslegum aðstæðum norskra fjölmiðla og meta mótun og áhrif opinberra áhrifaþátta á efnahagsleg rammaskilyrði fjölmiðla. Í tillögum að breytingum verður að leggja áherslu á að fyrirkomulag styrkja verður að miðast sem markvissast við hin fjölmiðlapólitísku markmið.

Í tengslum við fjárlagaumræðuna í fyrra fór Stórþingið fram á það við ríkisstjórnina að hún skipaði opinbera nefnd til þess að athuga dagblaðastyrkinn. Lögð var áhersla á að starfið verði að ná til allra þátta sem mynda rammaskilyrði fjölmiðla og líta beri á dagblaðastyrkinn í fjölmiðlapólitísku heildarsamhengi" segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Svíþjóð

10.06.99: Mikil áhersla á sænskar kvikmyndir

Frumvarp ríkisstjórnarinnar "Ný sænsk kvikmyndastefna" hefur verið sent þinginu en í því er að finna tillögur að allnokkrum breytingum og aukningu á styrknum til framleiðslu og sýningar sænskra kvikmynda, miðað við ástandið eins og það er í dag.

"Frumvarpið byggir á því samkomulagi um kvikmyndamál sem ríkið, kvikmyndageirinn og sænska sjónvarpið ásamt TV 4 komu sér saman um í aprílmánuði", segir í fréttatilkynningunni.

"Nýja samkomulagið færir sænska kvikmyndageiranum 385 millljónir s. kr. árlega frá og með 1. janúar 2000. Um er að ræða aukningu um rúmar 100 millj. s. kr. miðað við þetta ár. Styrknum er skipt á þrjú svið:

207 millj. s. kr. eru ætlaðar sem framleiðslustyrkur fyrir sænskar kvikmyndir. Þetta er veruleg aukning, og meginhluti er ætlaður kvikmyndum í fullri lengd sem fyrirfram styrkur, barna- og unglingamyndum, stutt- og heimildamyndum og sem fyrirfram styrkur í formi þróunarstyrks svo að ekki síst sjálfstæðir framleiðendur geti skapað samfellu í starfi sínu.

Um 91 millj. s. kr. eru áætlaðar í dreifingu og sýningu á kvikmyndum um allt land þar sem aðaláherslan er lögð á kynningarstyrk, styrk til dreifingar á afritum, hvatningarstyrk til kvikmyndahúsaeigenda sem vilja sýna sænskar kvikmyndir, svo og styrk til sýningarsamtaka og svæðisbundinnar kvikmyndastarfsemi.

Um 87 millj. s. kr. eru ætlaðar í kvikmyndamenningarlega starfsemi en þar er aðallega um að ræða styrki til varðveislu á sænsku kvikmyndaarfleifðinni og til tryggingar á aðgengi að henni, svo og styrki til textunar kvikmynda og myndbanda á sænsku og táknmálstúlkunar, svo og fjármuni sem ætlaðir eru til alþjóðlegrar kynningar á sænskum kvikmyndum", segir m.a. í fréttatilkynningunni.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

19.05.99: Skýrslan "Samleitni og breyting Samhæfing löggjafar í fjölmiðla- og fjarskiptageiranum" afhent menningarmálaráðherranum

" Tækniþróunin gerir að verkum að tæknilega verða línurnar milli upplýsingatækni, fjarskipta og fjölmiðla æ óljósari. Þetta skapar vandamál í aðlögun löggjafar á þessum sviðum (einkum varðandi grundvöll tjáningarfrelsis, hljóð- og sjónvarpslöggjafar og fjarskiptalaga)", segir skýrsluhöfundurinn Leif Andersson í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

" Þess vegna er þörf á samhæfingu þessara lagareglna. Tilgangurinn með samhæfingu á að vera að bæta úr þeim vandamálum sem komið hafa í ljós og, eftir því sem hægt er, að þróa skilvirkari og markvissari uppbyggingu reglna. Því ber að leitast við að koma á sameiginlegum reglum um hljóðvarp, sjónvarp og fjarskiptastarfsemi að því leyti sem unnt er. Samræma ber starfið áfram með samleitnimálefnin í samstarfsnefnd ráðuneyta", segir í fréttatilkynningunni.

Í skýrslunni er samleitni lýst sem fyrirbæri og gerð úttekt á því hvernig sænsk löggjöf verkar með tilliti til samleitni. Einnig er fjallað um alþjóðlega löggjöf og athugun á starfi ESB að samleitnimálefnum í skýrslunni.

Lestu fréttatilkynninguna om Konvergens och förändring Samordning av lagstiftningen för medie- och telesektorerna (Samleitni og breyting Samhæfing löggjafar í fjölmiðla- og fjarskiptageiranum) (SOU 1999:55).

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Norðurlönd

03.06.99: Norrænt samstarf um stafrænt sjónvarp í uppnámi

"Starfið á Norðurlöndum í þá veru að ná samkomulagi um sameiginlegt stýrikerfi vegna stafrænna sjónvarpsmóttakara er í uppnámi", segir Dagens Næringsliv. "Samnorræna viðleitnin til að koma á fót slíkum staðli, Nordig, ber ekki árangur fyrr en evrópsku staðlasamtökin DVB (Digital video broadcast) hafa fundið lausn. Í Evrópu er barátta milli tveggja kerfa um yfirráð yfir sjónvarpsmálunum."

Johan Thorud, fulltrúi NRK í Nordig, staðfestir við blaðið að Nordig-samstarfið er á erfiðu stigi.

" Við óttumst að þetta geti leitt til þess að hinir ýmsu staðlar verði á markaðnum í langan tíma þannig að neytendur ruglist í ríminu", segir Thorud við dagblaðið.

Fulltrúar hins franska greiðslusjónvarpsrisa Canal Plus hafa einnig áhyggjur af skorti á samstöðu í Evrópu um staðla.

"Samkvæmt yfirmanni Canal Plus á Norðurlöndum Stefane France liggur á að verða á eitt sátt um sameiginlegan staðal bæði á Norðurlöndum og í Evrópu. Stærsta hugbúnaðarfyrirtæki heims, hið bandaríska Microsoft, er að kaupa sig inn í bæði kapal- og gervihnattageirann og er farið að skipta sér af inntakinu. Frá því áður hefur Microsoft verið nærri einrátt á sviði stýrikerfa fyrir pc-tölvur. Nú er markmið Microsoft að ná að setja eigin hugbúnað í öll sjónvarpstæki heims", skrifar Dagens Næringsliv.

Dagblaðið skrifar að Canal Plus hafi á eigin vegum þróað kerfið Media Highway. "Í dag nota um 2,5 millj. `stafræn` heimili í tíu þjóðlöndum þetta kerfi og stýra með því þeim 50.000 stafrænu gervihnattamóttökurum sem nú þegar hafa verið seldir eða leigðir út á Norðurlöndum. Samkeppnisaðilinn OpenTV er útbreiddari í Skandinavíu en Media Highway, þar eð það er notað í kapalkerfum fyrir bæði Telia og TeleDanmark. Á Bretlandi hefur BskyB, sem er undir stjórn Rupert Murdoch, valið OpenTV sem lausn fyrir sínar stafrænu gervihnattasendingar. OpenTV er í eigu hins Suður-Afríska MIH og hugbúnaðarfyrirtækisins Sun."

Heimild: Dagens Næringsliv

20.05.99: Fleiri norrænir kvikmyndahúsagestir á árinu 1998

MEDIA Salles, verkefni MEDIA II-áætlunarinnar til eflingar kvikmyndahúsarekstri í Evrópu, kynnti tölfræði sína fyrir 1998 á Cannes-hátíðinni. Bráðabirgðatölur sýna fjölgun seldra kvikmyndahúsamiða um 6,6 % frá 1997 til 1998, eða úr 792 í 844 milljónir miða

Tölurnar staðfesta hina almennu tilhneigingu í Evrópu, sem hefur verið skýr, að frátöldum samdrætti árið 1995. Endurnýjun kvikmyndahúsa og nýbyggingar, til viðbótar við hinar góðu kvikmyndir sem heimamenn hafa gert, eykur á þessa tilhneigingu að áliti fulltrúa MEDIA Salles. Gott dæmi er Frakkland þar sem voru seldir um 21 milljónum fleri miða en árið 1997, í prósentum var aukningin 14,2.

"Titanic-áhrifin" jukust í Frakklandi 1998, og um 20 milljónum fleiri miðar seldust vegna þessarar myndar einnar, en bestu myndirnar sem gerðar voru heima fyrir sáu 23 milljónir manna, segir í tilkynningu frá MEDIA Salles.

Á Stóra-Bretlandi voru seldir fjórum milljónum færri miða árið 1998 en árið áður, 135,2 milljónir, sem telst um 2,7 % samdráttur.

Á öllum Norðurlöndum nema Íslandi (-1 %) varð aukning í miðasölu árið 1998. Árið 1997 fækkaði kvikmyndahúsagestum um 4,7 % í Noregi og 1,2 % í Svíþjóð. Aukningin árið 1998 er breytileg milli 1,5 % í Danmörku, 4 % í Svíþjóð, 5,3 % í Noregi og 6,3 % í Finnlandi. Fara verður aftur til ársins 1991 til að finna hagstæðari tölur í Finnlandi: Sex milljónir seldra miða voru árangurinn árið 1998.

Í Danmörku minnkaði markaðshlutdeild mynda sem gerðar eru af heimamönnum um 6 %, úr 18,8 í 1997 í 12,8 % árið 1998. Í Svíþjóð nam samdrátturinn 3,4 %, úr 17,8 % árið 1997 í 14,4 % árið 1998. Bæði í Danmörku og Svíþjóð jókst markaðshlutdeild kvikmynda sem gerðar eru í Bandaríkjunum árið 1998, í annars vegar 77,8 og hins vegar 76,3 %, en hlutdeild evrópskra kvikmynda minnkaði úr 13,1 í 9,1 % í Danmark og úr 14,9 í 8,7 % í Svíþjóð.

Heimild: MEDIA Salles "European Cinema Journal" N 1/1999
Tölur fyrir 1997: "European Cinema Yearbook 1998 edition",
Tölur fyrir 1998 eru bráðabirgðatölur


Fara efst á síðuna