svane.jpg - 2932 Bytes Medier i Norden

Fyrsta ársfjórðungsútgáfa 1999
  
    Aðalsíða - á íslensku | Safn: Ársfjórðungsleg útgáfa | Yfirlit   
  Efnisyfirlit

Danmörk   |  Finnland   |   Ísland   |   Noregur   |   Svíþjóð   |   Norðurlönd

  Ársfjórðungsútgáfur á Medier i Norden
á íslensku eru til á netinu frá og með árinu 1998. Í þeim er að finna útdrátt á íslensku úr greinunum í Medier i Norden á skandinavísku: Resymé.

Öllum er frjálst að vitna í Medier i Norden ef heimildar er greinilega getið.

  Ritstjóri                                                  Ábyrgðarmaður
Terje Flisen (TF)                                      Søren Christensen, framkvæmdastjóri
Postboks 1726 Vika                                 Nordisk Ministerråd,
0121 Oslo, Norge                                     Store Strandstræde 18
Tlf. + 47 22 20 80 61                                DK-1255 København K., Danmark

Medier i Norden (áður Nordisk Medie Nyt) ISSN 1396-9331 ­ rafræn útgáfa.

 

Danmörk

04.03.99: DR2 niður á jafnslétt

"Elsebeth Gerner Nielsen, menningarmálaráðherra fékk í dag (03.03.99) loforð um stuðning hjá þeim málsvörum flokkanna sem fjalla um fjölmiðla, við samning sem felur í sér að langt um fleiri áhorfendur geti framvegis horft á DR2", segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

"Með því að nýta t.d. lausar sjónvarpstíðnir, sem hafa verið ætlaðar grenndarsjónvarpi, er þess vænst að hægt sé að fjölga hugsanlegum áhorfendum DR2 úr um 65 í um 80 %. Nýi samningurinn, sem verður viðauki við samninginn um fjölmiðlamál, felur jafnframt í sér að ódýrara verður fyrir grenndarstöðvar, sem sjónvarpa í atvinnuskyni, að sjónvarpa á neti.

Gjöld stöðvanna til ríkisins - netgjaldið – verða lækkuð árið 2000 um 5 milljónir d.kr. - úr 25 í 20 milljóna d.kr. Netgjaldið er nýtt til fjármögnunar á þeim sjóði að fjárhæð 50 milljóna d.kr. sem styðja grenndarútvarps- og sjónvarpsstöðvar sem ekki eru reknar í atvinnuskyni. Í því skyni að tryggja að sá sjóður verði áfram að fjárhæð 50 milljónir d.kr. verður í lok ársins 1999 lagður niður sjóðurinn sem ætlað er að styrkja tilraunir með grenndarsjónvarp og fjarskipti. Þannig sparast 5 milljónir d. kr. sem greiddar verða í grenndarstöðvasjóðinn.

Unnt verður að koma á laggirnar stærri sameiginlegri nefnd í því skyni að auka tekjustofna grenndarsjónvarps- og útvarpsstöðva. Loks felur samningurinn í sér að ekki verður tekið upp sérstakt leyfisgjald vegna einkatölva árið 1999 eða árið 2000", segir í fréttatilkynningunni.

Tekið er fram í fréttatilkynningunni að menningarmálaráðherrann hafi í síðustu viðræðulotu unnið að því að veita DR möguleika á að geta áfram ráðstafað fjórðu útvarpsrásinni sem nær til alls landsins en að ekki hafi náðst samkomulag varðandi það atriði.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

25.02.99: Kvikmyndasamningurinn fyrir árin 2000 - 2002 í höfn

"Elsebeth Gerner Nielsen, menningarmálaráðherra hefur í dag (24.02.99) gert pólitískt samkomulag sem tryggir að fjárhagsstyrkur ríkisins til kvikmyndagerðar verður aukinn um 75 % á næstu þrem árum. Samkvæmt fjárlögunum fyrir 1999 varð hækkun á kvikmyndastyrkjum um 50 millj. d. kr. árið 1999, en ekki náðist þá að skapa meirihluta fyrir samningi um kvikmyndastyrkinn á árunum á eftir", segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

Þar með rætist ósk ríkisstjórnarinnar um að auka kvikmyndastyrkinn enn frekar, um 100 millj. d. kr. árið 2000, og 150 millj. d. kr. á árunum 2001 og 2002. Meirihlutinn að baki samningunum eru ríkisstjórnarflokkarnir, Venstre, Íhaldsflokkurinn, SF, CD og Enhedslisten. Hinir flokkarnir verða að tilkynna síðar hvort þeir vilji vera aðilar að samningnum.

"Menningarmálaráðherra hóf máls á þessum samningi nú vegna þess að ráðuneytið hefur nýlokið við rammasamning við Det Danske Filminstitut um skiptingu hins aukna fjárstyrks. Því væri æskilegt að tryggja sem mesta vissu fyrir þessum rammasamningi og fyrir kvikmyndaframleiðslu í framtíðinni, ekki síst vegna hinna mörgu fjárfesta í einkageiranum, sem hugsanlega hefðu áhuga að verja peningum í kvikmyndaverkin", heitir í fréttatilkynningunni.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Finnland

25.02.99: Finnar fara meira í kvikmyndahús – til að sjá finnskar kvikmyndir

Biðraðirnar við sölulúgur finnskra kvikmyndahúsa, sem þegar síðastliðið haust voru langar, lengjast stöðugt. Í fyrsta sinni eftir að sjónvarpstæki hertóku finnsk heimili hafa fleiri en 100.000 manns farið í kvikmyndahús um eina helgi.

Og þetta gerðist ekki aðeins um eina helgi, heldur aftur og aftur. Og áhorfendur vilja sjá finnskar kvikmyndir. Jouni Mykkänen, forstöðumaður Kvikmyndastofnunar Finnlands, ritar að sögn NewsRoom Finland, í fréttabréf kvikmyndastofnunarinnar að áherslan á gæði í finnskri kvikmyndagerð sé nú að skila sér. Góð handrit, góð kvikmyndastjórnun, góð upptökutækni, góðir leikarar; allir þessir þættir eru vatn á myllu finnskrar kvikmyndagerðar um þessar mundir.

Annar þáttur, skrifar Mykkänen, er að viðfangsefnin sem tekin eru til umfjöllunar í myndunum, greining á og vangaveltur yfir fortíðinni, á fleiri stigum, eru ekki einungis á áhugasviði kvikmyndafólksins heldur einnig áhorfenda. Ein hinna stóru kvikmynda (Ambush - Rukajärven tie) fjallar um síðari heimsstyrjöldina, önnur um (Tommy and the Wild Cat - Poika ja ilves) vináttu drengs og gaupu. Á hinn bóginn er vel metin kvikmynd Pirjo Honkasalo (Fire-Eater - Tulennielijä) dæmi um finnskan módernisma.

Nú er eftir hertaka hins alþjóðlega markaðar – á breiðum grunni. Tommy and the Wild Cat - Poika ja ilves, hefur verið seld til meira en 40 landa, og slíkt ýtir undir vonir um sölu á fleiri kvikmyndum.

Heimild: Kvikmyndastofnun Finnlands/Newsroom Finland

09.2.1999 Leyfi til stafræns sjónvarps vekja áhuga umsækjenda í Finnlandi

Samgönguráðuneyti Finnlands bárust 37 umsóknir om leyfi til stafræns sjónvarps, sem annað hvort nær til landsins alls eða er grenndarsjónvarp. 42 fyrirtæki sóttu um leyfi til stafræns hljóðvarps. Frestur til að sækja um leyfi til stafræns og analógs útvarps rann út hinn 1. febrúar sl. Ráðherrahópurinn sem fjallaði um málefni tengd leyfum til útvarps hefur sett sem markmið að unnt skuli vera að taka ákvörðun á þessu kjörtímabili. Þingkosningar voru í marsmánuði.

Leyfi til stafrænnar sjónvarpsstarfsemi er veitt til útvarps þriggja rásakippa. 17 fyrirtæki sækja um leyfi til stafræns sjónvarps til alls landsins. Í krafti nútímatækni rúmast að meðaltali fjórar sjónvarpsrásir í hverri rásakippu.

Tíu hljóðvarpsstöðvar sækja um leyfi til stafræns hljóðvarps sem nær til alls landsins. Ætlunin er að veita minnst eitt leyfi til stafræns hljóðvarps sem nær til alls landsins. Ennfremur eru veitt leyfi til stafræns hljóðvarps í Nyland og á Helsingforssvæðinu. Hvert leyfi til stafræns hljóðvarps veitir leyfi til útvarps á einni hljóðvarpsrás.

Samkvæmt lögum um útvarpsstarfsemi skal hluti af flutningsgetunni á stafræna dreifingarnetinu tekinn frá fyrir Rundradion Ab. Gert er ráð fyrir að regluleg stafræn útvarpsstarfsemi hefjist í Finnlandi í byrjun ársins 2000.

Heimild: Samgönguráðuneyti Finnlands

Fara efst á síðuna
 

Ísland

30.03.99 Ný lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Hinn 11. mars s.l. voru samþykkt á Alþingi Íslendinga ný lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Markmið laganna er að laða að erlenda aðila til að framleiða kvikmyndir eða sjónavarpsefni á Íslandi með því að endurgreiða tímabundið hluta af innlenndum framleiðslukostnaði.

Heimilt er samkvæmt lögum þessum að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við gerð kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi. Skilyrði er þó að kostnaðurinn falli til á Íslandi og að greidd laun og verktakagreiðslur séu sannanlega skattlagðar á Íslandi. Þá þarf ákveðnum skilyrðum að vera fullnægt við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði. Stofna þarf sérstakt félag um framleiðslu myndarinnar á Íslandi, liggja þarf fyrir sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun, lágmarksframleiðslukostnaður á Íslandi þarf að vera 80 milljónir kr., endurskoðað kostnaðaruppgjör þarf að liggja fyrir að lokinni framleiðslu og ljúka þarf framleiðslu innan þriggja ára frá því að endurgreiðslubeiðnin er móttekin.

Hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar skal vera 12% á árunum 1999-2002 en 9% á árunum 2003-2005. Þá lækkar endurgreiðsluhlutfallið um helming sé framleiðslukostnaður á bilinu 80-100 milljónir kr. en um fjórðung sé kostnaðurinn á bilinu 101-120 milljónir kr. Ennfremur skal tekið fram að ef umsækjandi um endurgreiðslu vegna kvikmyndar hefur hlotið styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands, fær hann ekki endurgreitt vegna framleiðslu sömu myndar.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

15.02.99: Nýtt frumvarp til útvarpslaga

Lagt hefur verið fram á Alþingi Íslendinga nýtt frumvarp til útvarpslaga og er því ætlað að mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Miðað er við að útvarpslögin taki fyrst og fremst til einka útvarps- og sjónvarpsstöðva sem starfa samkvæmt sérstöku leyfi útvarpsréttanefndar og að um Ríkisútvarpið gildi sérlög, þó þannig að almenn ákvæði útvarpslaga gildi um Ríkisútvarpið nema annað sé sérstaklega ákveðið.

Tilefni endurskoðunar útvarpslaganna nú er setning nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 97/36/EB en hún átti að koma til framkvæmda í öllum aðildarríkjum EES eigi síðar en 30. desember 1998. Sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins tekur aðeins til sjónvarpsmála en ekki þeirra þátta er varða útvarp. Í frumvarpi til útvarpslaga er þó gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um sjónvarp og hljóðvarp eftir því sem við getur átt.Tilskipun nr. 97/36/EB hefur ýmsar breytingar í för með sér á íslenskri útvarpslöggjöf.

Í fyrsta lagi er það skýrt til hvaða sjónvarpsútsendinga íslensk lögsaga nær en ákvæði um þetta er ekki í núgildandi lögum. Lögsögureglur tilskipunarinnar byggjast einkum á tveimur grundvallarsjónarmiðum, frelsi sjónvarpsstöðva innan hvers aðildarríkis EES til þess að sjónvarpa til annarra aðildarríkja og heimild til sjónvarpsútsendinga um allt Evrópska efnahagssvæðið svo framarlega sem útsending er í samræmi við löggjöf útsendingarríkis.

Í öðru lagi er hverju aðildarríki EES heimilað samkvæmt tilskipuninni að gera skrá um tiltekna þýðingarmikla viðburði sem senda á út í dagskrá, sem meginhluti almennings hefur aðgang að, þó að sjónvarpsstöð sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu, hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum. Í frumvarpi til útvarpslaga er gert ráð fyrir heimild til þess að setja reglugerð um þetta efni en íslenska ríkinu er þó ekki skylt að nýta þessa heimild.

Í þriðja lagi er tekin upp regla þess efnis, að sjónvarpsstöðvar skuli, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma á ári eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til gerðar evrópskra verka, þar á meðal íslenskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum.Tilskipunin hefur það einnig í för með sér að reglur núgildandi útvarpslaga um auglýsingar og kostun eru gerðar nokkru skýrari en verið hefur og að tekin eru upp ákvæði um vernd barna gegn skaðlegu efni.

Það nýmæli er í frumvarpinu að menntamálaráðherra er heimilað að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi á Íslandi. Hin stafræna tækni gefur mikla möguleika til betri nýtingar tíðnisviðsins en nú er, meðal annars þannig að fleiri aðilar eiga þess kost að hefja raunverulega samkeppni, sérstaklega í sjónvarpi. Að auki mun sá kostur fylgja stafrænu útvarpi að gæði útsendinga aukast til mikilla muna, möguleiki skapast á þáttasölusjónvarpi ("pay-per-view") og kvikmyndapöntun ("video-on-demand"). Þá er hin stafræna tækni forsenda samruna sjónvarps, fjarskipta og tölvutækni í eitt svið með óljósum landamærum.

Í eldri útvarpslögum hefur þótt skorta ákvæði um rétt útvarpsstöðva til aðgangs að kapalkerfum. Í hinu nýja frumvarpi til útvarpslaga er bætt úr þessu með því að tryggja útvarpsstöðvum aðgang að almennum fjarskiptanetum, sem hagnýtt eru til útvarpssendinga. Að lokum er í frumvarpinu lagt til að Menningarsjóður útvarpsstöðva sem fjármagnaður hefur verið með 10% af auglýsingatekjum útvarpsstöðva, verði lagður niður en sjóðurinn hefur verið mjög umdeildur.

Heimild: Menntamálaráðuneyti

15.02.99: Tímamótasamkomulag um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar

Í desember 1998 var gert nýtt samkomulag menntamála- og fjármálaráðherra annars vegar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og samtaka kvikmyndagerðarmanna hins vegar um stóraukinn stuðning við Kvikmyndasjóð Íslands í því skyni að efla íslenska kvikmyndagerð.

Með samkomulaginu skuldbindur ríkisstjórnin sig til að auka fjárframlag til Kvikmyndasjóðs Íslands í fjórum áföngum. Í fjárlögum ársins 1999 er gert ráð fyrir að verja 176,4 milljónum króna til Kvikmyndasjóðs, sem er 40 milljónum hærri fjárhæð en sjóðurinn hafði til ráðstöfunar á síðastliðnu ári. Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs hækki um 30 milljónir árið 2000, 35 milljónir 2001 og 30 milljónir árið 2002.

Fjárveiting til sjóðsins verður því orðin 270 milljónir króna árið 2002. Frá og með þeim tíma er stefnt að því að árlega verði gerðar 5 leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd, með styrk sem nemur 40% af kostnaðaráætlun, í stað 20% áður. Miðað er við 100 milljóna króna framleiðslukostnað að meðaltali á hverja mynd og því gert ráð fyrir að heildarframlag framleiðslustyrkja vegna myndanna fimm verði allt að 200 milljónum króna árið 2002. Þeim fjármunum sem eftir standa er ætlað að standa straum af öðrum verkefnum Kvikmyndasjóðs, svo sem að styrkja aðrar myndir en að ofan greinir, greiða framlag í erlenda kvikmyndasjóði, sinna kynningarstarfi og sjá um Kvikmyndasafn Íslands.

Samkomulagið felur einnig í sér að komi til þess að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður, en um það liggur fyrir frumvarp á Alþingi, er gert ráð fyrir að á næstu fjórum árum eftir það verði veitt fé úr ríkissjóði í sérstaka deild í Kvikmyndasjóði til þess að gera heimildarmyndir, stuttmyndir, hreyfimyndir og fleira þannig að í lok tímans verði allt að 100 milljónir króna til ráðstöfunar á ári hverju í þessu skyni í Kvikmyndasjóði. Þar með fá útvarpsstöðvarnar sjálfar umráð yfir þeim 10% af ákveðnum tekjum sínum, sem þær hafa orðið að láta renna í menningarsjóðinn. Svigrúm þeirra til að efla innlenda dagskrárgerð ætti að aukast í samræmi við það.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

15.02.99: Kvikmyndasafn Íslands fær sænskar kvikmyndir að gjöf

Kvikmyndasafni Íslands hefur borist rausnarleg gjöf frá sænska kvikmyndasafninu, 57 filmukópíur með sænskum kvikmyndum. Með gjöfinni vill sænska safnabíóið, sem er það elsta í heimi, sýna í verki stuðning sinn við uppbyggingu safnabíós (cinematek) á Íslandi og aðstoða Kvikmyndasafn Íslands við að koma sér upp eigin safni kvikmynda til að byggja dagskrá sína á.

Myndirnar 57 eru frá ýmsum tímum þótt flestar séu þær frá 6. og 7. áratugnum. Þar ber einkum að nefna átta kvikmyndir Ingmars Bergmans, tvær myndir eftir Gustaf Molander, tvær myndir Bo Widerberg og tvær myndir eftir Vilgot Sjöman.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

15.02.99: Stafrænar sjónavarpsútsendingar í augsýn á Íslandi

Í janúar var undirritað samkomulag um samstarf milli Landssímans og norsk/franska fyrirtækisins Canal Digital AS sem felst í því að þróa útsendingu stafræns sjónvarps á Íslandi en síðarnefnda fyrirtækið hóf nýlega stafrænar sjónvarpsútsendingar á hinum Norðurlöndunum.

Stefnt er að því að Canal Digital AS verði tæknilegur bakhjarl, reki gervihnettina sem notaðir verða í verkefnið og leggi til hugbúnað fyrir myndlyklana svo eitthvað sé nefnt. Landssíminn hins vegar verður umboðsaðili Canal Digital AS á Íslandi, sér um áskriftarþjónustu og samskipti við viðskiptavini en samstarfið gerir það að verkum að fjárfesting og þróunarkostnaður Landssímans verður mun minni en ella. Myndlyklarnir verða þeir sömu fyrir öll Norðurlöndin og verður íslenska eins og hin norrænu tungumálin, innbyggð í myndlyklana. Bæði verður hægt að ná útsendingum gegnum Breiðbandið og þar sem móttökudiskur fyrir gervihnattaútsendingar er fyrir hendi. Þar af leiðandi verður hægt að sjá umræddar útsendingar um allt Ísland.

Ætlunin er að tryggja Íslendingum sama efni í stafrænu sjónvarpi og öðrum Norðurlandabúum stendur nú þegar til boða. Margt í dagskrá Canal Digital AS er hið sama og þegar er fyrir hendi í Breiðvarpi Landssímans en helsta nýjungin er hið svokallaða "pay per view", þáttasala.

Ekki er endanlega ljóst hvenær útsendingar geta hafist en vonast er til að Íslendingar geti náð útsendingum fyrirtækisins fyrir næstu jól.

Heimild: Menntamálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Noregur

16.03.99: NRK hefur áform um stafrænar sjónvarpssendingar á jörðu niðri

"Stjórn NRK AS (hf.) veitti á mánudaginn var (15.03.99) stjórnendum útvarpsins umboð til að gera samkomulag við dreifingarfyrirtækið Norkring AS (hf.) um samstarf að stafrænum sjónvarpssendingum á neti á jörðu niðri (DVB-T)", segir í NRKInfo.

"Alls hyggst Norkring stækka fjóra analóga senda þannig að þeir geti tekið á móti stafrænum merkjum.

Norkring miðar að því að stækka hluta búnaðarins svo hægt verði að flytja um átta sjónvarpsrásir", segir í NRKInfo. Lestu greinina í NRKInfo.

Heimild: NRKInfo

25.01.99: Meiri aðsókn að norskum kvikmyndum 1998

"1998 var gott ár fyrir norsk kvikmyndahús þar sem fjöldi heimsókna mjakaðist yfir 10%", segir í fréttatilkynningu frá Norsk filminstitutt. Árið 1997 keyptu hér um bil 5% kvikmyndahúsagesta miða til þess að horfa á norskar kvikmyndir. "Auk þess sýna tölurnar að myndbönd og sjónvarp eru risamarkaður fyrir norskar kvikmyndir," segir í tilkynningunni, sem fjallar um tölurnar frá 1998: 1.159.500 manns horfðu á norskar kvikmyndir (að meðtöldum myndum framleiddum með þátttöku Norðmanna) miðað við heildarfjölda kvikmyndahúsagesta sem er 11,4 milljónir manna.

Sjónvarpið gat sýnt áhugaverðar tölur þar sem höfðu verið sýndar alls 77 kvikmyndir og skiptust þær í 21 á NRK1, 23 á NRK2, 20 á TV3 og 13 á TV2. Heildarfjöldi áhorfenda á norskar kvikmyndir var 13,3 milljónir, og 37 kvikmyndir voru sóttar af meira en 100.000 manns. Meðalfjöldi áhorfenda á norskar kvikmyndir á NRK1 var 346.000, en samsvarandi tala varðandi erlendar myndir var 249.000," segir í fréttatillkynningunni frá Norsk filminstitutt.

Heimild: Norsk filminstitutt v/kvikmyndadeild

25.01.99: Ernst & Young leggja til endurskipulagningu kvikmyndastyrkja

"Spurningamerki við þörfina á því að Norsk Film AS sé framleiðslufyrirtæki í eigu hins opinbera. Hörð gagnrýni á Norsku kvikmyndastofnunina. Ernst & Young Management Consulting hefur að beiðni menningarmálaráðuneytisins litið í saumana á fyrirkomulagi opinberra styrkja til kvikmynda til þess að geta veitt ráð um hvernig allt eigi að geta orðið betra. Fyrirtækið leggur til að öllum styrkjum verði safnað undir hatt einnar opinberrar stofnunar, teknir verði upp mismunandi styrkjakostir fyrir kvikmyndir af ólíku tagi, og að gerðar verði strangari kröfur um eigið fé til flestra", segir í Aftenposten.

"Nú ráðstafar Norsk filminstitutt, Audiovisuelt produksjonsfond og Norsk Film sem er í eigu hins opinbera alls 130 milljónum n.kr. árlega í kvikmyndastyrki ríkisins. Ernst & Young veitir núverandi styrkjafyrirkomulagi lélegan vitnisburð", segir blaðið.

Á fréttamannafundi hinn 22. janúar staðhæfði verkefnisstjóri Ernst & Young, Trond Myhrvold, að sögn Aftenposten, að framleiðendur geta náð sér í meira en 100% styrki fyrir kvikmynd. Myhrvold sagði að hvorki Norsk filminstitutt né Norsk Film eigi að vera áberandi í framtíðarfyrirkomulagi styrkja. Tillögur um aukningu kvikmyndastyrkja, eins og athuganir hafa leitt til bæði í Danmörku (samþykkt) og í Svíþjóð (er í nánari athugun) voru ekki hluti af umboði Ernst & Youngs frá menningarmálaráðuneytinu.

Menningarmálaráðuneytið og viðkomandi aðilar ræða skýrsluna á málþingum og víðar og frestur til að skila athugasemdum rennur út 1. maj 1999.

Heimild: Aftenposten

Fara efst á síðuna
 

Svíþjóð

22.03.99: Nefnd leggur til löggjöf gegn samruna fjölmiðla

"Fjölmiðlasamrunanefndin (Mediekoncentrationskommittén) hefur í dag (22. mars) skilað umsögn sinni `Tjáningarfrelsið og samkeppnin` um frumvarp að lögum í því skyni að standa vörð um fjölbreytileikann í sænskum fjölmiðlum og vinna gegn því að eign á fjölmiðlum og vald henni samfara safnist á fáar hendur en slíkt getur skaðað frjálsa miðlun skoðana og staðið gegn frjálsri og alhliða veitingu upplýsinga", segir í fréttatilkynningu menningarmálaráðuneytisins.

Nefndin telur líklegt að samþjöppun eignaraðildar haldi áfram á fjölmiðlasviði. Af tillögum nefndarinnar er ljóst að "...lagt er til að (samkeppnislögin) verði betrumbætt með sérstakri reglu sem eftir aðlögun að fjölmiðlasviðinu verji grundvallarhagsmuni varðandi það að tryggja tjáningarfrelsið".

Nefndin styður sjálfstæða fjölmiðlasamrunalöggjöf, og segir í fréttatilkynningunni að "... (hvað) varðar eftirlit með fyrirtækjayfirtöku og aðra samþjöppun sem varðar mest skoðanamyndandi fjölmiðlana, dagblöð (bæði á pappír og í rafrænni útgáfu), útvarp og sjónvarp leggi nefndin til að samþykkt verði sjálfstæð fjölmiðlasamrunalöggjöf. Nefndin bendir á að tækniþróunin og framtíðarvangaveltur í svonefndum samrunamálum geti valdið því að nauðsynlegt verði að láta löggjöfina einnig ná til nýrrar starfsemi".

Nefndin leggur til að "... almannaþjónustufyrirtækin sem eru í eigu sjóða, þ.e. SR, SVT og Kennsluútvarpið (Utbildningsradion) verði undanþegin lögunum. Annars gilda lögin bæði um ríkis- og einkafyrirtæki og óháð því hvort fyrirtækið er sænskt eða erlent, að því tilskildu að starfsemin fari fram í landinu". Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskránni, að áliti nefndarinnar, til þess að "... tryggja beitingu samkeppnislaga og til þess að hægt sé að setja lög um fjölmiðlasamruna. Mjög torvelt er að skýra lög um prentfrelsi og tjáningarfrelsi í þessu tilliti".

Nefndin hefur einnig litið á kapalsjónvarpsfyrirtækin og kemst að því að "... (stöðu kapalsjónvarpsfyritækja) svipi til einkaréttar og nauðsynlegt sé að huga að breytingu á ákvæðum um tjáningarfrelsi þannig að hægt sé að veita áskrifendum tækifæri til að hafa á áhrif á dagskrárframboðið á kapalkerfnunum. Nefndin leggur fyrst um sinn til nýtt ákvæði í útvarpslögunum sem ógilda skilmála í tengisamningum um takmörkun réttar til að setja upp eða nota annan kapalsjónvarpsbúnað eða setja upp gervihnattardisk". Tímafrekt er að breyta stjórnarskránni. Því stingur nefndin upp á að "... lagt verði til að (meginhluti) hinna nýju reglna taki gildi 1. janúar 2003. Ein þeirra breytinga sem lagt er til að gerð verði á samkeppnislögum og tillagan varðandi útvarpslögunum er hvorug háð því að breyting verði gerð á stjórnarskránni og því er lagt til að þær taki gildi þegar 1. janúar 2000".

Nefndin er ekki einhuga um tillöguna. "... nefndarmennirnir Anders Björck (m), Olle Wästberg (fp) og Karin Johansson (kd) hafa gert fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur að því að ekki sé nauðsynlegt að setja lög á þessu sviði og talið er að tillögur nefndarinnar hafi engin áhrif", segir í fréttatilkynningunni.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

15.02.99: Langtímasjónarmið og fjölbreytileiki einkarekinna svæðisútvarpsstöðva

"- Ég hef í dag (15.02.99) skilað Marita Ulvskog, menningarmálaráðherra, greinargerð minni um framtíð svæðisútvarpsstöðva sem reknar eru í atvinnuskyni. Samkvæmt greinargerðinni er í lagi að flétta saman langtímasjónarmiðum varðandi hljóðvarpsgreinina og auknum fjölbreytileika, svo og að gefa hverri stöð sitt eigið viðmót án þess að stjórnmálin séu að lúffa fyrir markaðnum eða teljist afskiptasöm."

Skýring Niklas Nordström, talsmanns ríkisstjórnarinnar, hljóðar svo í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu: "Í stuttu máli felst í tillögunni í greinargerðinni að núverandi leyfi framlengjast, að uppboðsaðferðin hverfur og að útsendingar hverrar stöðvar hljóta sjálfstæðan skýrari svip", segir í fréttatilkynningunni. "Nýju leyfin skulu gilda í fjögur ár með rétti á framlengingu tvisvar hið mesta. Gjaldinu fyrir þessi nýju leyfi verður skipt í fastan og hins vegar breytilegan hluta sem er háður tekjum af auglýsingum og kostun. Í greinargerðinni er einnig lagt til að þau leyfi sem nú gilda verður hægt að framlengja til loka ársins 2008. Lagt er til að gjöldin sem voru ákvörðuð þegar leyfin voru boðin út gildi áfram á næsta leyfistíma. Þeir leyfishafar sem hljóta samkeppni frá nýju analógu sendingunum á dreifingarsvæðinu hljóta fjárhagslegar bætur.

- Tillagan gerir einkareknum svæðisútvarpsstöðvum kleift að gera mat til langs tíma. Hún gerir einnig leyfishöfunum kleift að gera tilraunir og þróa inntakið í útsendingunni, svo og að leggja drög að tæknilegri umbrytingu í stafrænt hljóðvarp, segir Niklas Nordström. Í stað núverandi fyrirkomulags þar sem leyfin eru fengin hæstbjóðanda verður samkvæmt tillögunni beitt valaðferð, þar sem eignarhald umsækjanda á fjölmiðlum á dreifingarsvæðinu og hlutfall eigin efnis eru tekin til skoðunar. Í þeim fáu tilvikum þar sem skilmálarnir duga til að velja skal litið á umfang útsendinga. Ekki verður krafist leyfis til að breyta umfangi útsendinga. Í því skyni að auka fjölbreytileika einkarekinna svæðishljóðvarpstöðva er í greinargerðinni lagt til að hver stöð útvarpi eigin efni af þeirri gerð, sem engin önnur stöð útvarpar, minnst þrjár klukkustundir á dag milli kl. 6.00 og 21.00. Það er umfram allt þá sem fólk hlustar á einkareknar útvarpsstöðvar.

Lagt er til að nýju reglurnar taki gildi 1. janúar 2001."

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

05.02.99: "Skoðun prentfrelsislöggjafarinnar og laga um tjáningarfrelsi"

"Ríkisstjórnin hefur í dag samþykkt að fela þingkjörinni undirbúningsnefnd að skoða grunnlöggjöfina á fjölmiðlasviðinu, varðandi prent- og tjáningarfrelsi ", segir í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

"Skoðunin er nauðsynleg, m.a. vegna hinnar hröðu þróunar á sviði upplýsingartækni. Verkefnið er fjórþætt.

Í fyrsta lagi á nefndin að rannsaka hvaða forsendur eru fyrir hendi til að gera hina stjórnarskrárbundnu vernd tjáningarfrelsis óháðari þeirri tækni sem beitt er við tjáninguna og miðlun annarra upplýsinga til almennings.

Í verkefni nefndarinnar felst í öðru lagi að taka afstöðu til þess hvort lengja eigi ákærutímann vegna hinna ýmsu brota gegn prentfrelsi og tjáningarfrelsi.

Nefndin á í þriðja lagi að líta nánar á nokkur vandamál framkvæmdalegs eðlis hvað varð fyrst og fremst tjáningarfrelsið sem lagakanslarinn hefur bent ríkisstjórninni á. Í fjórða lagi á nefndin að taka afstöðu til þess hvort telja beri ólögmætar hótanir brot á prentfrelsi eða tjáningarfrelsi. Greinargerðin á að vera tilbúin 31. desember 2000."

Heimild: Dómsmálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Norðurlönd

01.03.99: Nordic Baltic Media Statistics 1998

NORDICOM, Norræna upplýsingamiðstöðin fyrir fjölmiðla- og samkiptarannsóknir við háskólann í Gautaborg (Nordiskt Informationscenter för Medie- och Kommunikationsforskning vid Göteborgs universitet), hefur nýlega kynnt Nordic Baltic Media Statistics 1998. Í fyrsta sinn er gögnum um fjölmiðla í Eystrasaltsríkjunum safnað á einn stað í stíl við upplýsingar um Norðurlöndin.

Urmul tölfræðiupplýsinga er að finna á fast að 400 blaðsíðum ritsins. Meðal annars er að finna ítarlegar upplýsingar um mestu fjölmiðlasamsteypurnar á Norðurlöndum, eignir þeirra og hvernig eignarhald teygir sig yfir landamærin.Um sjónvarp, hljóðvarp, kvikmyndir og kvikmyndahús, hljómplötur, tölvur og Internet, auglýsingar, dagblöð, tímarit og bækur er að finna ítarleg tölfræðigögn.

Titill: Nordic Baltic Media Statistics 1998
Ritröð: Nordic Media Trends 4
Útgefandi: NORDICOM, Göteborgs universitet,
sími +46 (0) 31 773 10 00 Ritstjóri: Ulla Carlsson, NORDICOMFara efst á síðuna