svane.jpg - 2932 Bytes Medier i Norden

Önnur ársfjórðungsútgáfa 2001
  
    Aðalsíða - á íslensku | Safn: Ársfjórðungsleg útgáfa | Yfirlit   
  Efnisyfirlit

Danmörk   |  Finnland   |  Ísland   |   Noregur   |   Svíþjóð   |   Alþjóðlegt

  Ársfjórðungsútgáfur á Medier i Norden
á íslensku eru til á netinu frá og með árinu 1998. Í þeim er að finna útdrátt á íslensku úr greinunum í Medier i Norden á skandinavísku: Resymé.

Öllum er frjálst að vitna í Medier i Norden ef heimildar er greinilega getið.

  Ritstjóri                                                  Ábyrgðarmaður
Terje Flisen (TF)                                      Søren Christensen, framkvæmdastjóri
Postboks 1726 Vika                                 Nordisk Ministerråd,
0121 Oslo, Norge                                     Store Strandstræde 18
Tlf. + 47 22 20 80 61                                DK-1255 København K., Danmark

Medier i Norden (áður Nordisk Medie Nyt) ISSN 1396-9331 ­ rafræn útgáfa.

 

Danmörk

20.6.2001: Í framtíðinni á stafrænt sjónvarp í Danmörku einnig að vera í boði á rásum á netinu

Í samtali við Berlingske Tidende skýrir Elsebeth Gerner Nielsen, menningarmálaráðherra, hvers vegna hún vilji leggja áherslu á það sem blaðið nefnir „áhættusamasta fyrirkomulagið"; rúmlega 40 Internet-rásir með sjónvarpssendingar.

„Í þessu felst ekkert annað en algjör bylting í því hvernig við notum sjónvarp. Auk DR, TV2 og velþekktra sjónvarpsstöðva svo sem TV3 og TvDanmark verður í nýju stafrænu sjónvarpsveröldinni sérstök tíðni með meira en 40 Internet-rásir þar sem allir geta boðið fram efni. Öllu verður útvarpað frá loftnetum á jörðu niðri og þar með verður hægt að horfa á efnið alls staðar í landinu í nýjum stafrænum sjónvarpstækjum eða, á aðlögunartímabili, fyrir tilstilli stafræns millitengis að hefðbundnu sjónvarpstæki.

Í menningarpólitískum og lýðræðislegum skilningi er þetta framsýnasta lausnin. Og ég er mjög á því að nota heilt „multiplex" í nýja stafræna sendikerfinu fyrir Internet-rásir," segir Elsebeth Gerner Nielsen við Berlingske Tidende.

Fjölmiðlaumræðunum í Folketinget lýkur með haustinu.

Heimild: Berlingske Tidende


10.5.2001: Danskar kvikmyndir hafa fram að þessu 35 prósenta markaðshlutdeild á þessu ári

Lauslegur bráðabirgðaútreikningur Dönsku kvikmyndastofnunarinnar sýnir að fjóra fyrstu mánuði ársins hafa verið seldar 1,5 miljónir miða á danskar kvikmyndir sem samsvarar 35 prósenta markaðshlutdeild.

Þetta er hér um bil 15 prósentum meira en (allt) árið 2000. Undanfarin fimm ár hafa verið seldar að meðaltali um það bil tvær miljónir miða á ári á danskar kvikmyndir.

„Í heild hafa verið seldir fleiri miðar en venjulega á tímabilinu. Miðað við síðastliðið ár er um að ræða 7% fjölgun á seldum miðum í heild. Þetta er þróun sem væntanlega fyrst og fremst má þakka aðdráttarafli kvikmyndar Lone Scherfig 'Ítalska fyrir byrjendur' (Zentropa) en í vetur og vor og fram til aprílloka höfðu verið seldir 835.000 miðar, þar af 570.000 á þessu ári," segir í fréttatilkynningunni frá Dönsku kvikmyndastofnuninni.

Heimild: Danska kvikmyndastofnunin

Fara efst á síðuna
 

Finnland

18.5.2001: Valkvæður fjölmiðlastyrkur til 29 dagblaða

„Ráðherrann hefur tekið ákvörðun um úthlutun styrks til lækkunar flutnings- og dreifingarkostnaðar og annars kostnaðar fyrir dagblöðin" segir í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu.

„Jafnframt var tekin ákvörðun um styrk til verkefna sem miða að því að þróa dagblöðin. Samtals 30 milljónir finnskra marka voru ætlaðar í styrkina. Ráðherrann úthlutaði styrkjum til 29 dagblaða. Styrkjunum var úthlutað 17. maí sl.

Ákvörðunin var tekin í samræmi við tillögur fjölmiðlastyrksnefndarinnar sem hefur tekið tillit til þess styrks sem umsækjendum var veittur fyrir ári og breytinga á fjárhagslegum aðstæðum umsækjenda á undanförnu ári" segir m.a. í fréttatilkynningunni.

Heimild: Samgönguráðuneytið


9.5.2001: Stafrænar sjónvarpssendingar um netkerfi á jörðu niðri hefjast stig af stigi í Finnlandi

27. ágúst 2001 hefjast reglulegar stafrænar sjónvarpssendingar um netkerfi á jörðu niðri í Finnlandi.

Upphafið verður stig af stigi. Tólf stafrænar sjónvarpsrásir koma til með að auka dagskrárframboðið haustið 2001. Auk þess verður í upphafi mjög takmarkaður aðgangur að bæði stafrænum móttökuboxum fyrir flaumræn sjónvarpstæki og sjónvarptækjum með innbyggðum stafrænum móttakara, segir Internytt.

Internytt, vefsetur YLE á sænsku fyrir fréttir, fylgist með undirbúningnum að upphafi stafræns sjónvarps og hefur opnað nýja síðu um stafrænt sjónvarp (http://www.yle.fi/internytt/special/digitv.htm ) sem verður uppfærð reglulega.

Heimild: Internytt YLE

Fara efst á síðuna
 

Ísland

18.5.2001: Íslendingar bjóða erlenda kvikmyndaframleiðendur velkomna

Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, fór á Cannes-hátíðina til að markaðssetja fyrirkomulagið sem gerir erlendum framleiðendum kleift að fá endurgreiddan hluta af kostnaðinum við kvikmyndaframleiðslu á Íslandi.

Að sögn Daily News from Iceland vonast viðskiptaráðherrann til þess að fyrirkomulagið sem áður hefur verið lýst í Medier í Norden, verði fleiri framleiðendum hvatning til að fara til Íslands og framleiða kvikmyndir, en slíkt kemur líka til með að efla innlenda kvikmyndaframleiðslu.

Þetta uppátæki er ekki ólíkt því sem önnur lönd hafa tekið upp í því skyni að draga fjárfestingar til sín, segir viðskiptaráðherrann við Morgunblaðið, og bætir við að þetta sé nauðsynlegt, ef íslenskur kvikmyndaiðnaður á að geta keppt við iðnaðinn í öðrum löndum. Fyrirkomulagið er til bráðabirgða og verður tekið til endurmats árið 2006.

Heimild: Daily News from Iceland

Fara efst á síðuna
 

Noregur

7.6.2001: Metaðsókn að norskum kvikmyndum

Í fréttatilkynningu slær Kvikmyndastofnun Noregs föstu að á fyrstu fimm mánuðum ársins hafa 1,3 miljónir Norðmanna heimsótt kvikmyndahúsin til að sjá norskar kvikmyndir. Síðast höfðu norskar kvikmyndir verulegan markaðshluta árið 1996 þegar „Kristin Lavransdatter" var mikilvægasti þátturinn og norskar kvikmyndir náðu 12,6 prósenta markaðshlutdeild.

Áhorfendur á norskar kvikmyndir það sem af er árinu 2001 eru þegar tvöfalt fleiri en allt árið 2000. „Norskar kvikmyndir eru í þann mund að ná rúmlega 10 prósenta markaðshluta á ársgrundvelli. Önnur og gleðileg tíðindi fyrir norsku kvikmyndagreinina er að tekjur af aðgöngumiðum á kvikmyndir ársins eru orðnar meiri en heildarframleiðslukostnaður", segir í fréttatilkynningunni.

„Tvennt hefur aðallega aukið velgengni norskra kvikmynda ársins. Aðsókn að kvikmyndinni `Elling` fór yfir 600.000 áhorfendur þegar við mánaðamótin maí-júní, og við lok hvítasunnuhelgarinnar höfðu rúmlega 250.000 Norðmenn séð `Heftig og begeistret`. Samtals er hlutur þessara tveggja titla rúmlega 80 prósent af metaðsókn ársins að norskum kvikmyndum. Mikilvægi hinna velheppnuðu kvikmynda fyrir heildarárangurinn verður vart ofmetið", segir forstjóri kvikmyndastofnunarinnar, Erling Dale, samkvæmt fréttatilkynningunni.

Heimild: Kvikmyndastofnun Noregs


26.4.2001: Menningarmálaráðherra vill hafa sterkt NRK, þar sem markmið fyrirtækisins eru skýr

NRK stendur andspænis grundvallarkostum, sagði Ellen Horn, menningarmálaráðherra, í árlegri fjölmiðlagreinargerð sinni fyrir Stortinget. Greinargerðin fjallaði í stórum dráttum um NRK og framtíð félagsins á stafrænni öld.

- Í stefnu sinni í fjölmiðlamálum gengur ríkisstjórnin út frá því að tryggja verði fjölmiðlunum eins mikið frelsið og hægt er, en jafnframt verður að taka í notkun hentug stjórnunartæki til að tryggja tjáningar- og upplýsingafrelsi, margbreytni, gæði og aðgengi, en einnig nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda börn og unglinga, sagði menningarmálaráðherra.

Hún benti á að NRK er mesta afrek Norðmanna í menningar- og fjölmiðlamálum sem má að mörgu leyti telja sjálfa gersemina í norska fjölmiðlaríkinu. Í stafrænum fjölmiðlaraunveruleika sem einkennist af hnattvæðingu og auknum viðskiptum verður mikilvægara en nokkru sinni að hafa almenningsútvarpsfélag án auglýsinga sem er fjármagnað af hinu opinbera.

Menningarmálaráðherra stefnir að því að leggja skýrslu fyrir Stórþingið, breiða og ítarlega greinargerð, sem nær til alls fjölmiðlageirans að meðtöldum tillögum dagfjölmiðlanefndarinnar. Einnig á fjárlögunum ríkisins 2002 verða tillögur sem snerta framtíð NRK.

- Ég trúi á framtíð fyrir almenningsútvarp sem er að meginhluta til fjármagnað með afnotagjöldum, sagði menningarmálaráðherra meðal annars. Hún áleit að spurningin um hvort almenningsútvarp verði áfram fjármagnað af notendum sem greiða afnotagjöld verði ekki bara skoðuð í sambandi við tækniþróunina.

Nægir fjármögnun með afnotagjöldum til að leiða NRK inn í stafrænu öldina? spurði menningarmálaráðherra. Þetta er spurning sem ráðuneytið er nú að meta. Annars konar fjármögnun leiðir að mati ráðherrans NRK inn í starfsemi sem byggist á vinsældum. Er það slíkt NRK sem við viljum? spurði hún.

Menningarmálaráðherra benti á mikilvæg rök sem mæla gegn einkavæddu NRK sem fjármagnað er með auglýsingatekjum: Norski sjónvarpsauglýsingamarkaðurinn er í dag á ársgrundvelli minni en fjárhagsáætlun NRK sem nemur þrem milljörðum norskra króna, og nýr aðili á stærð við NRK hefði eyðileggjandi áhrif fyrir alla sem skipta eiga slíkum markaði að sögn Horn.

Menningarmálaráðherrann taldi ekki útilokað að blönduð fjármögnun geti verið kostur, ef NRK á að takast að skipta í nýja og nauðsynlega tækni, en tengja verður skýrar forsendur við slíkt blandað fyrirkomulag sem einnig fullnægir kröfum ESB um skýr skil milli starfsemi almenningsútvarps og samkeppnisrekstrar fyrirtækisins.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Svíþjóð

21.5.2001: Uppboð á útvarpsleyfum fyrir svæðishljóðvarp sem rekið er í viðskiptaskyni afnumin

„- Ég er mjög ánægð. Þegar í kosningabaráttunni árið 1994 hétu jafnaðarmenn að afnema uppboðin á útvarpsleyfum fyrir svæðishljóðvarp. Þetta hefur verið langt ferli en nú erum við loksins búin. Þetta felur einnig í sér betri forsendur fyrir aukinni margbreytni og tengingu svæðishljóðvarps við næsta umhverfi", segir Marita Ulvskog, menningarmálaráðherra, í athugasemd við að Þingið hefur ákveðið að breyta skilyrðunum fyrir úthlutun útvarpsleyfa til svæðishljóðvarps sem rekið er í viðskiptaskyni.

Í fréttatilkynningu frá sænska menningarmálaráðuneytinu um nýju reglurnar, sem öðlast gildi 1. júlí, segir:
„Tillaga ríkisstjórnarinnar sem Þingið hefur samþykkt felur m.a. í sér
-að uppboðin á útvarpsleyfum fyrir staðarútvarp sem rekið er í viðskiptaskyni skuli afnumin
- að auka megi útvarpsefni sem er eigin framleiðsla og um staðbundnar aðstæður
- að líta megi til eignarhalds þegar leyfi er veitt.

Hver leyfishafi skal í dagtímum senda minnst þrjár klukkustundir af eigin efni.

Leyfið gildir í fjögur ár hið mesta, en framlengja má til fjögurra ára í senn.

Einkaleyfisgjaldið vegna hins nýja leyfis er SEK 40.000 á ári. Fyrir þau svæðisútvarpsleyfi sem fyrir eru skal gjaldið sem var ákveðið við breytinguna á uppboðinu greitt einnig á komandi leyfistímabilum.

- Það er góð tilfinning að við höfum loksins fengið nýjar reglur fyrir svæðisútvarpið sem rekið er í viðskiptaskyni, segir Marita Ulvskog. Innan skamms kem ég til með að bjóða aðilum í svæðisútvarpsgeiranum til umræðna um reynsluna af þeim árum sem útvarp hefur verið rekið í viðskiptaskyni".

Heimild: Menningarmálaráðuneytið


4.5.2001: Fjölmiðlanotkun Svía er stöðug, sýnir Fjölmiðlavogin 2000

Fjölmiðlanotkun Svía hefur breyst tiltölulega lítið á undanförnu ári, tilkynnir Nordicom-Sverige. Þrátt fyrir hinar miklu væntingar er hlutfall Internet-notenda um það bil það sama og fyrir einu ári. Á óvart kemur að notkun prentmiðla (fyrst og fremst tímarit) eykst.

„Þetta eru nokkrar af meginniðurstöðum Fjölmiðlavogarinnar 2000. Fjölmiðlavogin er árleg athugun á fjölmiðlanotkun Svía sem framkvæmd er af Nordicom-Sverige við háskólann í Gautaborg. Fjölmiðlavogin hefur verið sett af stað ár hvert frá 1979", segir í fréttatilkynningu. Fjöldi þeirra sem nota Internet daglega hefur náð stöðugleika eftir aukningu í mörg ár, eitt prósent upp frá 1999 í 32 prósent.

„Um 1990 voru í stórum dráttum jafnmargir hlutfallslega sem lásu morgunblöðin, hlýddu á útvarp og horfðu á sjónvarp í Svíþjóð. Síðan hefur sjónvarpið stigvaxandi aukið hlut sinn - úr 79 prósentum 1990 í rúmlega 85 prósent. Árið 2000 var hlutfall áhorfenda á meðaldegi 88 prósent, sama hlutfall og 1999", segir í fréttatilkynningunni.

„Útvarpshlustun er á sama stigi og verið hefur nokkur ár aftur í tímann og var á árinu 2000 80 prósent. Nokkuð hefur dregið úr hlustun síðan 1994, en meira en áður en einkarekið svæðisútvarp tók til starfa.

Hlutur hljóðvarpsins var 35 prósent - mesti hlutinn - af heildartímanum sem Svíar vörðu til fjölmiðlanotkunar árið 2000, hlutur sjónvarps (án textavarps) var 28 prósent.

Morgunfjölmiðlarnir hafa færst nokkuð í aukana í samanburði við 1999 og hafa um 74 prósent lesendur á meðaldegi. Í stórum dráttum er það eins og verið hefur á öllum tíunda áratugnum og auk þess nákvæmlega hluturinn sem morgunblöðin höfðu strax árið 1979", segir meðal annars í fréttatilkynningunni.

Heimild: Nordicom-Sverige

Fara efst á síðuna
 

Alþjóðlegt

13.6.2001: Jákvæð viðhorf gagnvart ríkisstuðningi við kvikmyndir á ESB-fundi
í Stokkhólmi

Áhuginn á tveggja daga ESB-fundi sem haldinn var í Filmhuset í Stokkhólmi um ríkisstyrk við kvikmyndir og stafræn kvikmyndahús (e-bio) var mikill, og að sögn Svenska Dagbladet var jákvætt andrúmsloft allan fyrri dag fundarins, 12. júní.

„Spurningin á dagskránni var: hvernig fer saman opinber stuðningur Evrópuríka við kvikmyndir annars vegar og samkeppnisreglur ESB hins vegar? Á fyrri fundinum um málið í París í nóvember voru andstæðurnar harðar", skrifar Svenska Dagbladet.

„En sameiginlegar aðgerðir af hálfu menningarmálaráðuneytis, kvikmyndastofnunar og kvikmyndageirans alls til stuðnings kvikmyndastyrkjum hefur mýkt framkvæmdastjórn ESB. Hubert Drabbe úr framkvæmdastjórn ESB er einungis jákvæður.

- Menningin er ein af undantekningunum hvað varðar frjálsan hreyfanleika vöru og þjónustu. Það sem við höfum gert er að rannsaka hvernig mismunandi styrkjafyrirkomulag fer saman við samkeppnisreglur ESB. Ég lít þannig á að engin vandamál séu fyrir hendi. Hugsanlega er nauðsynlegt að gera fáeinar minni háttar lagfæringar. Í nánast öllum Evrópuríkjum er stuðningur við kvikmyndaframleiðslu við lýði, annars mundi innlend kvikmyndaframleiðsla ekki lifa af", segir Drabbe við Svenska Dagbladet.

Heimild: Svenska Dagbladet


23.5.2001: Viðhorf Svía til auglýsinga sem beint er til barna hljóta stuðning

„­ Við höfum fengið öflugri stuðning í barnaauglýsingamálinu en ég reiknaði með. Jafnvel fundurinn með umsóknarlöndunum fór fram úr væntingum", sagði Marita Ulvskog, menningarmálaráðherra, við lok hins óformlega fundar menningarmálaráðherra í Falun 22. maí s.l.

Í fréttatilkynningu frá sænska menningarmálaráðuneytinu segir:

„Fundurinn hófst á sérstökum fundi umsóknarlanda og EES-landa (alls 31 ríki átti fulltrúa) þar sem sérstök áhersla var lögð á hlutverk hljóð- og myndefnismiðla bæði fyrir lýðræði og menningarlega margbreytni.

Varðveisla og þróun frjálss og óháðs almannaþjónustuhljóðvarps og -sjónvarps var ofarlega á baugi. Umsóknarlöndin kynntu öflugan stuðning við framtak það um aukið samstarf við umsóknarlöndin bæði á sviði hljóð- og myndefnis og menningarmála, sem Svíar hafa í formennsku sinni haft forgöngu um.

Mál, sem m.a. var haldið á lofti í umræðunni, voru:
· að umsóknarríkin geti snemma tekið þátt í áætlunum sambandsins á sviði menningarmála og hljóð- og myndefnis.
· að frjálsir og óháðir fjölmiðlar í þágu þess að varðveita menningarlega margbreytni eru mikilvægastir Allnokkrar sendinefndir vöktu einnig máls á hættunni á samþjöppun eignarhalds á sviði fjölmiðla.
· Mörg umsóknarríki gerðu grein fyrir aðlögunarstarfi sínu og löggjöf og þeim vandamálum sem upp hafa komið í þessu ferli, t.d. tengslin milli starfandi almannaþjónustusjónvarps og -hljóðvarps og markaðarins.

Mörg aðildarríki tjáðu mikinn áhuga á að ræða málið. Í umræðunni var einnig almennur stuðningur við það að sérstakt tillit skuli tekið til barna varðandi auglýsingar.

Allnokkur aðildarríki fögnuðu úttekt á sjónvarpstilskipuninni í því skyni að skerpa reglurnar um auglýsingar sem beint er til barna. Önnur aðildarríki álitu að þær reglur sem er að finna í sjónvarpstilskipuninni séu nægjanlegar og veiti þeim aðildarríkjum svigrúm sem vilja koma á strangari reglum.

Samkvæmt athugun sem framkvæmdastjórn ESB pantaði hefur þriðjungur aðildarríkjanna takmarkanir varðandi auglýsingar sem beint er til barna.

Mörg aðildarríki fögnuðu áformum Svía sem í krafti formennsku sinnar vilja viðhalda þrýstingi í þessu máli. Mikil samstaða var um mikilvægi þess að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt aðildarríkjanna hvað varðar almannaþjónustu og að sleppa því að leyfa neikvæð áhrif vegna samkeppnisreglna ESB.

Framkvæmdastjórnin boðaði skjal í málinu síðar á þessu ári", segir að lokum í fréttatilkynningunni.

Heimild: Sænska menningarmálaráðuneytiðFara efst á síðuna