svane.jpg - 2932 Bytes Medier i Norden

Önnur ársfjórðungsútgáfa 2000
  
    Aðalsíða - á íslensku | Safn: Ársfjórðungsleg útgáfa | Yfirlit   
  Efnisyfirlit

Danmörk   |   Grænland  |   Finnland   |  Ísland   |   Noregur   |   Svíþjóð   |   Norðurlönd

  Ársfjórðungsútgáfur á Medier i Norden
á íslensku eru til á netinu frá og með árinu 1998. Í þeim er að finna útdrátt á íslensku úr greinunum í Medier i Norden á skandinavísku: Resymé.

Öllum er frjálst að vitna í Medier i Norden ef heimildar er greinilega getið.

  Ritstjóri                                                  Ábyrgðarmaður
Terje Flisen (TF)                                      Søren Christensen, framkvæmdastjóri
Postboks 1726 Vika                                 Nordisk Ministerråd,
0121 Oslo, Norge                                     Store Strandstræde 18
Tlf. + 47 22 20 80 61                                DK-1255 København K., Danmark

Medier i Norden (áður Nordisk Medie Nyt) ISSN 1396-9331 ­ rafræn útgáfa.

 

Danmörk

19.6.2000: Sænsk framleiðslufélög sjónvarpsefnis taka stóra hluta af danska markaðnum

"Svíar eru vel á veg komnir að taka yfir framleiðslu dansks sjónvarpsefnis", segir í Politiken.

"Á meðan verið var að ljúka smíði Eyrarsundsbrúarinnar hafa einkum þrjú fjársterk félög að handan náð til sín mörgum hinna stóru pantana frá dönsku sjónvarpsstöðvunum fjórum. ­ Sænsku félögin hafa skapað meiri þrengingar í grein sem átti þegar undir högg að sækja", segir Preben Sepstrup fjölmiðlafræðingur við Politiken.

Um er að ræða Strix Television, en móðurfyrirtæki þess er sænska fjölmiðlasamsteypan Kinnevik, og auk þess Wegelius sjónvarp Bonnier-samsteypunnar og Jarowskij sem er í einkaeigu.

"Enn frekar harðnaði á dalnum í framleiðslugreininni í síðustu viku þegar DR tilkynnti að á næsta ári væri ætlunin að kaupa mjög fáa þætti úti í bæ. Stöðin er gagnrýnd fyrir að hvetja framleiðslufélögin til að senda inn í löngum bunum bestu hugmyndir sínar að þáttum í það sem er nú nefnt 'gerviútboð'. Einnig TV 2 er sakað um að kaupa ekki nóg frá einkafélögunum" segir í Politiken.

Heimild: Politiken

18.5.2000: Hvaða skilning leggur mennningarmálaráðherra í "almenningsþjónustu" (public service)?

"Í mínum huga er almenningsþjónusta þeir gildisþættir sem stjórna samfelldu sjónvarps- og útvarpskerfi í því skyni að þjóna almenningi" sagði Elsebeth Gerner Nielsen, mennningarmálaráðherra Dana í ræðu 18. maí sl. í Útgefendaklúbbnum (Publicistklubben).

Fundarefnið var "Hvaða skilning leggur þú í almenningsþjónustu?"

Mennningarmálaráðherrann sagði ennfremur: "Um er að ræða gildisþætti sem í ljósi menningarpólitísku stefnumiða minna hafa níu eftirsóknarverð sérkenni:

1. að vera viðmiðun fyrir allan almenning - okkur öll - og félagslegur samþættingarþáttur
2. að koma á fót vettvangi fyrir opinbera umræðu
3. að senda óhlutdrægar og hlutlausar fréttir og upplýsingar
4. að senda fjölbreytta dagskrá bæði á dönsku og öðrum tungumálum
5. að þróa dagskrárefni sem höfðar til bæði almennings og minnihlutahópa
6. að tryggja nýsköpun í eigin framleiðslu
7. að fjölga valkostum með því að bjóða þætti sem alla jafna er ekki í boði í fjölmiðlum sem reknir eru í viðskiptaskyni
8. að tryggja vettvang fyrir tjáningarfrelsið og fyrir þróun lýðræðis og danskrar menningar
9. að tryggja börnum, fötluðum, nýbúum og öðrum minnihlutahópum gæðasjónvarpsefni

Með öðrum orðum lýtur þetta að því að tengja okkur saman sem þjóð og veita okkur sameiginlega innsýn.

Um þig,...... mig......og okkur í sameiningu.

Þetta hefur verið rauði þráðurinn í starfi mínu að fjölmiðlasamkomulaginu", sagði mennningarmálaráðherra Dana meðal annars.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Grænland

19.5.2000: Upplýsingatækniráð Grænlands vill "Aðgerðir nú!"

"Það er upplagt að nýta þá möguleika sem upplýsingatæknin felur í sér. Í krafti upplýsingatækninnar getum við tengt saman landið, hist á netinu og eflt hæfni okkar. Við getum fært heiminn nær okkur og jafnframt gert okkur sýnileg úti í heimi" segir Ivalo Egede, forstöðumaður upplýsingatækniráðs Grænlands, í grein á heimasíðu upplýsingatækniráðsins.

Egede segir ennfremur: " Upplýsingatækniráð Grænlands sem landsstjórnin skipaði í janúar 1999 hefur rannsakað hvernig við getum nýtt þessa möguleika. Við höfum leitast við að fá eins marga og hægt var til að taka þátt í þessu og við vitum að margir eru reiðubúnir með margvíslegar góðar hugmyndir svo að hleypa megi þróun upplýsingatækninnar af stað hér á landi. Nú liggur fyrir tillaga okkar að upplýsingatækniáætlun á landsvísu. Henni ber að fylgja eftir. Þörf er aðgerða hér og nú! " segir meðal annars í greininni.

Heimild: Upplýsingatækniráð Grænlands.

Fara efst á síðuna
 

Finnland

9.6.2000: Skýringarskyldan á jafnvel að ná til rafrænnar útgáfustarfsemi

"Starfshópur sem hefur unnið að endurbótum laga um frjáls eintök leggur til að lögin nái einnig til rafrænnar útgáfustarfsemi" segir í fréttatilkynningu fra menntamálaráðuneytinu.

"Tillagan lýtur að bæði tæknilegum upptökum, á borð við geisladiska og DVD-diska, sem og netútgáfu en þar er átt við allt efni sem dreift er um opin tölvunet. Starfshópurinn leggur til að viðskiptavinum verði heimilt að skoða slíkt efni á söfnum fyrir frjáls eintök en aðeins í þar til gerðum tækjum sem eru varin gegn ólöglegri afritun".

Heimild: Menntamálaráðuneytið

29.5.2000: Fjölmiðlastyrkur handa 34 útvöldum dagblöðum

"Ráðherran hefur tekið ákvörðun um úthlutun styrks til lækkunar flutnings- og dreifingarkostnaðar og annars kostnaðar fyrir dagblöðin" segir í fréttatilkynningu fra samgönguráðuneytinu.

"Jafnframt var tekin ákvörðun um styrk til verkefna sem miða að því að þróa dagblöðin. Samtals 30 milljónir finnskra marka voru áætlaðar í styrkina á fjárlögum ársins 2000. Ráðherrann úthlutaði styrkjum til 34 dagblaða. Styrkjunum var úthlutað 25. maí sl. Ákvörðunin var tekin í samræmi við tillögur fjölmiðlastyrksnefndarinnar sem hefur tekið tillit til þess styrks sem umsækjendum var veittur fyrir ári og breytinga á fjárhagslegum aðstæðum umsækjenda á undanförnu ári" segir í fréttatilkynningunni.

Heimild: Samgönguráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Ísland

5.6.2000: Ný útvarpslög taka gildi

Alþingi Íslendinga samþykkti hinn 8. maí sl. ný útvarpslög sem ætlað er að mynda almennan ramma um alla útvarpstarfssemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Að stofni til eru lögin byggð á áðurgildandi lögum en nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir sérákvæðum um Ríkisútvarpið, eins og áður var heldur miðað við að um Ríkisútvarpið gildi sérlög.

Við framlagningu frumvarpsins á Alþingi í vetur sagði menntamálaráðherra að hið beina tilefni endurskoðunar útvarpslaga væri setning nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins en það nýmæli hennar, sem hvað mesta athygli hefur vakið, er heimild fyrir hvert aðildarríki EES til að gera skrá um tiltekna þýðingarmikla viðburði sem senda skal út í dagskrá sem meginhluti almennings hefur aðgang að þótt sjónvarpsstöð sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum.

Með gildistöku laganna er Menningarsjóður útvarpsstöðva lagður niður og munu fjármunir til stutt- og heimildamyndagerðar renna til Kvikmyndasjóðs skv. samkomulagi sem menntamálaráðherra, fjármálaráðhera og samtök í íslenskri kvikmyndagerð gerðu með sér í desember 1998.

Annað nýmæli í lögunum er að menntamálaráðherra er veitt heimild til að hefja undirbúning að stafrænu sjónvarpi.

Heimild: Menntamálaráðuneytiðð

Fara efst á síðuna
 

Noregur

6.6.2000: Skýrari reglur um auglýsingar og kostun í útvarpi

"Menningarmálaráðuneytið leggur til breytingar á reglugerðinni varðandi reglur um auglýsingar i textavarpi, kostun útvarps og skiptingu sendingartíma svæðisútvarps" segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

"Á minnismiða frá samráðsfundi er lagt til að í textavarpi NRK 1 AS sem birta dagskráryfirlit séu ekki birtar auglýsingar. Í textavarpi sem ætlað er börnum skuli ekki heldur vera auglýsingar og sú regla á við allar útvarpsstöðvar.

NRK 1 er heimilt að taka við framlögum vegna útsendinga frá íþróttaviðburðum. NRK 1 skal einnig vera heimilt að taka við framlögum vegna framleiðslu þátta frá viðburðum sem eru að öllu eða einhverju leyti á vegum NRKs sjálfs. Hér er átt við þætti sem útvarpa á til fleiri landa eða lúta að hagsmunum samfélagsins eða eru menningarlega mikilvægir, m.a. þætti sem tengjast þjóðlegum viðburðum einstakra þjóða. NRK 1 skal einnig vera heimilt að taka við framlögum til framleiðslu á kennsluþáttum sem eru ekki ætlaðir börnum eða unglingum" segir meðal annars.

Heimild: Samgönguráðuneytið

25.5.2000: Fjölmiðlanefndin skilaði áliti

­ Fjölmiðlar hafa staðið andspænis svo miklum breytingum á undanförnum árum að nauðsynlegt hafi reynst að fjalla um markmið og áhrifavalda varðandi stefnuna í fjölmiðlamálum að nýju sagði Ellen Horn, mennningarmálaráðherra, þegar Hallvard Bakke, formaður fjölmiðlanefndarinnar, skilaði henni samróma áliti nefndarinnar.

"­ Ég vil ekki segja fyrir um árangur starfsins sem hafið er, en ríkisstjórninni er það mikið forgangsmál að tryggja fjölmiðlum rammakjör þannig að þeir geti gegnt mikilvægu samfélagsverkefni sínu", sagði mennningarmálaráðherra að því er segir í fréttatilkynningu menningarmálaráðuneytisins.

"­ Það hvernig því markmiði verði náð verður í stöðugri skoðun og ég vona og trúi að álit fjölmiðlanefndarinnar verði góður grundvöllur þess starfs sem eftir er að vinna. Álitið verður svo fljótt sem verða má sent út til umsagnar", sagði Horn ráðherra.

"Aukning í beinum fjölmiðlastyrkjum að fjárhæð 100 milljóna norskra króna og nei við innheimtu virðisaukaskatts á dagblöðum eru helstu tillögurnar í áliti fjölmiðlanefndarinnar sem ríkisstjórnin skipaði", segir í fréttatilkynningu frá fjölmiðlanefndinni.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið/fjölmiðlanefndin

Fara efst á síðuna
 

Svíþjóð

16.6.2000: Endurskoðun útvarpslaga

"Ríkisstjórnin hefur ákveðið að sérstakur aðili skuli endurskoða tiltekin ákvæði í útvarpslögunum (1996:844) og lögunum (1989:41) um sjónvarpsgjald. Verkefninu skal lokið fyrir lok máimánaðar 2001" segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

Verkefnið felur í sér eftirfarandi atriði:

· Vernd barna
· Gjaldskyld sjónvarpsviðtæki
· Þættir sem er útvarpað að beiðni annarra
· Tilkynningar frá stjórnvöldum
· Staðsetning tilkynninga frá kostunaraðilum
· Ráðstafanir þegar látið er hjá líða að gefa vissar upplýsingar
· Reglur um auglýsingar
· Lögsaga
· Aðlögun leyfisskilyrða á tilteknum útsendingum
· Evrópski sáttmálinn um sjónvarp yfir landamæri

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

8.6.2000: Reglur um klámkvikmyndir í skoðun

Breytingar á útvarpslögum í því skyni að vernda börn og unglinga gegn klámmyndum í sjónvarpi kannaðar.

· Ákvörðun um skoðun á eftirlitsákvæðinu í eftirlitslögunum varðandi kynlífslýsingar.
· Kvikmyndaskoðunarmenn hjá Kvikmyndahúsastofu ríkisins (Statens biografbyrå) verða skipaðir til hámark sex ára samtals í stað 12 ára eins og endranær.

Þessar aðgerðir kynnti Marita Ulvskog, mennningarmálaráðherra, í tilefni umræðunnar í vor vegna heimildarmyndarinnar "Shocking Truth" segir í fréttatilkynningu frá menningarmálaráðuneytinu.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

8.6.2000: Almenningsþjónustuútvarp ­ nauðsynlegt afl í sænska fjölmiðlalandslaginu

Nefndin Útvarp í þjónustu almennings (Radio och TV i allmänhetens tjänst), undir stjórn Anders Ljunggren, hefur skilað lokaáliti sínu Útvarp och sjónvarp í þjónustu almennings ­ undirbúningsgrundvöllur (SOU 2000:55).

Í fréttatilkynningu frá Menningarmálaráðuneytinu segir: "­ Ef til vill er helsta lokaniðurstaða mín að mikilvægi almenningsþjónustufyrirtækjanna eykst frekar en hitt við þessar breytilegu fjölmiðlaaðstæður sem eru ríkjandi, segir Anders Ljunggren. Skipan dagskrár getur í öllum meginatriðum verið eins.

Meðal sjónarmiða álitsins má nefna eftirfarandi:

· Æ mikilvægara verður að almenningsþjónustufyrirtækin geti stuðlað að margbreytileika á stöðum þar sem gæti annars myndast stað- og svæðisbundinn fjölmiðlaeinkaréttur
· Breyta ber skattareglunum svo að þær brengli ekki forsendur þess að taka sem skynsamlegastar ákvarðanir á grundvelli útgáfu- og hagkvæmissjónarmiða. Því ber að bæta sex prósentu virðisaukaskatti á sjónvarpsgjaldið
· Afnema ber Rundradiokontot og sjónvarpsgjöldin eiga að fara beint til dagskrárfyrirtækjanna
· Ég legg til fleiri aðgerðir í því skyni að auka aðgengi þeirra sem tala tungumál minnihluta og fatlaðra að dagskrám
· Afnema má núverandi ákvæði um skipan fréttamála hjá sænska sjónvarpinu
· Ég mæli með því að skoðaðar verði forsendurnar fyrir samræmdu skipulagi almenningsþjónustunnar í því skyni að átta sig á forsendunum fyrir því hvernig best sé að bregðast við nýju aðstæðunum í fjölmiðlamálum", segir meðal annars í fréttatilkynningunni.

Heimild: Menningarmálaráðuneytið

Fara efst á síðuna
 

Norðurlönd

8.6.2000: Menningarmálaráðherrar Norðurlanda eiga að ræða málefni almenningsþjónustunnar í haust

Menningarmálaráðherrar Norðurlanda ákváðu á fundi í Kaupmannahöfn 7. júní sl. að fresta umræðunni um andspænis hvaða verkefni norræn starfsemi á sviði almenningsþjónustu stendur, fram til fundar í haust.

Fyrir ráðherrana sem voru gestir Elsebeth Gerner Nielsen, menningarmálaráðherra Dana lagði skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar áfangaskýrslu um almenningsþjónustu, staðreyndasafn. Ráðherrarnir höfðu pantað skýrsluna á fundi í febrúarmánuði. Skýrslan verður fyrst gerð opinber eftir að hún hefur verið send Norðurlandaráði og Norðurlandanefndinni, með viðbótaslýsingu á reglunum sem gilda fyrir Álandseyjar, Grænland og Færeyjar.

Í haust kemur ný skýrsla þar sem lýst er verkefnum á sviði almenningsþjónustu á Norðurlöndum. Sú skýrsla hefur þann tilgang að veita Norðurlöndum möguleika á að móta sameiginlegar lýsingar og skilgreiningar á vandamálum sem nota má í umræðum og samstarfi sem hugsanlega verður í framtíðinni um málefni almenningsþjónustu.

Heimild: Norræna ráðherranefndinFara efst á síðuna